Þorsteinn Vilhjálmsson – In memoriam

Þegar ég byrjaði að kenna við Menntaskólann í Reykjavík, haustið 1970, fékk ég það sem aðalverkefni að taka við eðlisfræðikennslunni í náttúrufræðideild skólans. Það var þá sem við Þorsteinn áttum okkar fyrsta samtal. Það snerist um námsefni tveggja bekkja sem hann hafði kennt í aukavinnu skólaárið 1969-70 og ég átti nú að taka við og koma í gegnum stúdentspróf í eðlisfræði. Ég man vel eftir þessum fundi og þeim góðu ráðum sem ég fékk hjá Þorsteini í veganesti.   

Árið 1972 fékk ég svo að kynnast því hversu góður kennari Þorsteinn var. Þá sat ég hjá honum námskeið í skammtafræði við Háskóla Íslands, en það var hluti af undirbúningi mínum fyrir meistaranám í eðlisfræði í Bandaríkjunum skólaárið 1973-74.

Eftir að Eðlisfræðifélag Íslands var stofnað 1977 hittumst við nokkrum sinnum á vettvangi þess og þar var hann yfirleitt í hlutverki fræðarans.

Þorsteini kynntist ég fyrst almennilega að loknu doktorsprófi, þegar ég hóf störf sem sérfræðingur á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans haustið 1982. Hann tók einstaklega vel á móti mér og þar hófust samskipti okkar fyrir alvöru. Þau stóðu nær óslitið í rúma fjóra áratugi.

Auk þess að vera samkennarar í eðlisfræði við Háskólann, unnum við Þorsteinn saman að margvíslegum „utanskólaverkefnum“ á sviðum eins og eðlisfræði, stjörnufræði og vísindasögu. Þar má meðal annars nefna ýmis fræðslu- og kynningarmál sem og menningar- og félagsmál. Slík verkefni voru reyndar svo mörg að ekki er raunhæft að reyna að telja þau öll upp hér. Ég mun þó minnast á nokkur þeirra hér á eftir.

Þorsteinn var viðfelldinn og vingjarnlegur maður og tryggur vinur vina sinna. Hann var mannblendinn og félagslyndur og aldrei heyrði ég hann tala illa um nokkurn mann. Honum var og ekkert mannlegt óviðkomadi, eins og sjá má á miklum fjölda greina sem eftir hann liggja um ýmis þjóðfélagsmál, svo sem um­hverf­is- og auðlinda­mál, menntamál, stjórnmál og fleira (ritaskrá Þorsteins má finna í lok þessara minningarorða). Hagsýnn var hann og ráðagóður og sýndi mikla samfélagslega ábyrgð í öllum sínum verkum.

Í umræðum sá hann yfirleitt fleiri en eina hlið á málum, og ég get vitnað um það, að á fundum eðlisfræðinga gerðist það oftar en einu sinni að hann kom í veg fyrir að mál væru afgreidd í fljótræði.

Þorsteinn var fyrst og fremst skarpgáfaður vísindamaður, rökfastur og einbeittur, sem fylgdi málum eftir af eldmóði, enda með afbrigðum vinnusamur. Aldrei varð ég þess var að honum félli verk úr hendi. Hann var mjög forvitinn um kennilegar og tæknilegar nýjungar, ekki síst í eðlisfræði, og linnti ekki látum fyrr en hann taldi sig hafa skilið þær til fullnustu. Þetta varð oftar en ekki tilefni gagnlegra og skemmtilegra umræðna í kaffitímum á Raunvísindastofnun og í samræðum við einstaka samstarfsmenn. Það kom og stundum fyrir að niðurstöður úr slíkum umræðum birtust í svörum á Vísindavefnum.

Í því sem á eftir fer verður fjallað stuttlega um valda þætti úr ævi og störfum Þorsteins, og þá eðlilega þau atriði sem ég tel mig vita eitthvað um. Ef til vill má deila um röð og áherslur, en ég vona að aðrir vinir hans, sem og ættingjar, taki að sér að fylla í helstu eyðurnar. Í því sambandi vil ég einnig benda lesendum á rúmlega klukkustundar langt viðtal sem tekið var við Þorstein hinn 21. september 2021.

Örstutt um vistina í Menntaskólanum í Reykjavík

Ég verð að viðurkenna að ég veit ósköp lítið um feril Þorsteins í MR, annað en það, að hann var í stærðfræðideild og afburða námsmaður. Hann varð og dux scholae við stúdentspróf vorið 1960.

Nemendur í 6. bekk X í MR skólaárið 1959-1960. Þorsteinn er annar frá hægri í mið-röðinni. Vinstra megin við hann er Sigurður Steinþórsson jarðfræðingur og lengst til vinstri í sömu röð stendur Jón R. Stefánsson stærðfræðingur. Fyrir miðju í fremstu röð sitja kennararnir og stærðfræðingarnir Guðmundur Arnlaugsson og Björn Bjarnason. Ljósmynd: Vigfús Sigurgeirsson.

Hinn 3. júlí 1960 birti Þjóðviljinn stutt viðtal við Þorsteinn. Þar kemur meðal annars fram að hann var þá þegar búinn að ákveða að leggja stund á eðlisfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Með sumarlaunin fyrir byggingarvinnu í vasanum og hjálp hins svokallaða „stóra styrks“ gekk sú fyrirætlan eftir og eðlisfræðinámið hófst samkvæmt áætlun haustið 1960.

Eðlisfræðinám og rannsóknir í Kaupmannahöfn

Hafnarháskóli 1960-1967

Þegar Þorsteinn hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla haustið 1960 var skólinn ekki lengur sú miðja rannsókna í skammtafræði sem hann hafði verið á millistríðsárunum. Frumkvæðið á því sviði hafði færst frá Evrópu til Bandaríkjanna og þekktustu nöfn virkra sérfræðinga í kennilegri skammtafræði voru ekki lengur Evrópubúarnir Bohr, Heisenberg, Born, Schrödinger, Dirac og Pauli, heldur Bandaríkjamennirnir Feynman og Gell-Mann.

Á þessum tíma var kjarneðlisfræði helsta rannsóknasvið sérfræðinganna við Stofnun Kaupmannahafnarháskóla í kennilegri eðlisfræði (kallað Niels Bohr Institutet (NBI) frá 1965) og aðalmennirnir á því sviði voru þeir Åge Bohr prófessor (sonur Nielsar Bohr) og Bandaríkjamaðurinn Ben Mottelson, prófessor við Nordita.

Þessi loftmynd af Níels Bohr stofnuninni var tekin árið 1965. Stofnunin afmarkast af Fælledparken að norðan og vestan, Blegdamsvej að suð-austan og Frímúrarahöllinni að norð-austan. Húsið lengst til vinstri var aðsetur Nordita, Norrænu stofnunarinnar í kennilegri eðlisfræði. Sérfræðingar Nordita héldu oft fyrirlestraraðir fyrir eðlisfræðistúdenta, kenndu stöku námskeið og tóku jafnvel að sér að leiðbeina stúdentum við meistara- og doktorsnám.

Fimm íslenskir eðlisfræðinemar fyrir framan Eðlisfræðistofnunina við Blegdamsvej einhvern tímann á árunum 1961 til 1963. Frá vinstri: Þorvaldur Búason, Eysteinn Pétursson, Stefán Briem (lauk prófi við Háskólann í Árósum), Sigfús J. Johnsen og Þorsteinn. Myndin er úr safni afkomenda Þorvalds Búasonar. Á svipuðum tíma og myndin var tekin, voru þeir Örn Helgason og Einar Júlíusson einnig þarna við nám, misjafnlega langt komnir.

Þegar Þorsteinn hóf nám í kennilegri eðlisfræði á seinni hluta við Eðlisfræðistofnunina var öreindafræði farin að ryðja sér þar til rúms, bæði í rannsóknum og kennslu, og ungu eðlisfræðistúdentarnir höfðu flestir meiri áhuga á henni en kjarneðlisfræðinnni. Í þeim hópi var Þorsteinn ásamt nokkrum dönskum stúdentum, sem síðar áttu eftir að leggja grunn að öflugri kennslu og rannsóknum í kennilegri öreindafræði við Niels Bohr stofnunina (hér má t.d. nefna þá Benny Lautrup, Poul OlesenHolger Bech Nielsen og Jens Lyng Petersen).

Þorsteinn sagði mér á sínum tíma, að þeir Jens Lyng hefðu orðið góðir vinir og haldið sambandi eftir að Þorsteinn fluttist aftur til Íslands.

Hér ber einnig að geta þess að í miðju námi, árið 1964, gekk Þorsteinn að eiga fyrri eiginkonu sína, Ingibjörgu Björnsdóttur, og meðan á Kaupmannahafnardvölinni stóð eignuðust þau tvo syni, Vilhjálm (f. 1965) og Björn (f. 1967). Eftir heimkomuna 1969 fæddist svo dóttirin Þórdís Katrín (f. 1971). Þau Ingibjörg skildu og árið 1976 giftist Þorsteinn Sigrúnu Júlíusdóttur, síðar prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þau eignuðust saman soninn Viðar (f. 1979) og Sigrún átti fyrir Orra Vésteinsson (f. 1967) sem Þorsteinn gekk í föðurstað.

Þorsteinn (lengst til hægri) og seinni eiginkona hans, Sigrún Júlíusdóttir, í Kaupmannahöfn sumarið 2022 í fylgd með Jens Lyng Petersen og Annette Petersen. Mynd úr safni ÞV.

Ekki veit ég hverjir voru aðalkennarar Þorsteins í öreindafræði, en líklega hafa það verið kennilegu öreindafræðingarnir Niels Brene og hinn þá nýráðni Ziro Koba, báðir við NBI, sem og James Hamilton, nýráðinn prófessor við Nordita. Ég reikna með að Knud H. Hansen hafi séð um tilraunahlutann.

Þorsteinn lauk cand. scient. prófi í kennilegri öreindafræði við Kaupmannahafnarháskóla með góðum vitnisburði vorið 1967. Lokaritgerð hans bar heitið

  • Anvendelsen af ligetidskommutationsrelationer mellem komponenter af de svage og electromagnetiske strömme, med specielt  henblik på beskrivelsen af ikke-leptoniske K-henfald. (57 bls.)

Ég hef því miður ekki séð þessa ritgerð og veit heldur ekki hver leiðbeinandi Þorsteins var.

Nordita 1967-1969

Að loknu kandidatsprófi fékk Þorsteinn tveggja ára rannsóknarstöðu við Nordita. Þótt það sé með öllu óvíst, er ekki ólíklegt að þá hafi hann þurft að flytja sig milli húsa á NBI-lóðinni. Mér finnst og sennilegt að hann hafi verið formlega skráður sem hluti af rannsóknarhópi Hamiltons, þótt ég viti það ekki með vissu.

Þorsteinn talaði lítið um reynslu sína við NBI og Nordita svo ég heyrði. Vinur hans, Jens Lyng, sem var með tímabundna rannsóknarstöðu á Nordita á sama tíma og Þorsteinn, birti hins vegar stutta en fróðlega lýsingu á dvöl sinni þar í bókinni Nordita – The Copenhagen Years, bls. 194-196.

Rétt er að hafa í huga, að á þessum tíma var nútíma öreindafræði enn í mótun og smám saman að taka á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Áhugi eðlisfræðinga um heim allan var mikill og fjöldi öreindafræðinga fór stöðugt vaxandi Enn var þó talsvert í land hvað heildarskilning á öreindaheiminum varðar, eins og sjá má á því, að þótt kenningin um rafveiku víxlverkunina væri að mestu frágengin var ekki sýnt fram á að hún væri endurstöðlanleg fyrr en 1971, tveimur árum eftir að Þorsteinn kom heim frá Danmörku. Kenningin um sterku víxlverkunina, skammtalitfræðin, kom til sögunar á árunum 1973 til 1974 og hugtakið staðallíkan öreindafræðinnar um svipað leyti. Hvað sem því líður, hélt Þorsteinn áfram þeim rannsóknum á Nordita, sem hafist höfðu með kandídatsverkefninu á NBI og nú í samvinnu við áðurnefndan Niels Brene og fyrrum samstúdent við NBI, Åge B. Kraemmer. Afraksturinn birtist í tveimur greinum í hinu merka tímariti Nuclear Physics B. Ekki verður gerð nein tilraun til að lýsa efni greinanna hér, en með því að smella á bláu tenglana fyrir neðan geta fróðleiksfúsir lesendur fengið aðgang að þeim báðum.

Forsíðurnar á öreindafræðigreinum Þorsteins og samhöfunda hans frá 1969 og 1970. Rétt er að benda á, að í kennilegri öreindafræði er venja að raða höfundum í stafrófsröð.

Ísland á ný

Raunvísindastofnun og Háskóli Íslands

Strax að lokinni dvölinni hjá Nordita hóf Þorsteinn störf á Íslandi, fyrst sem lausráðinn sérfræðingur við stærðfræðistofu Raunvísindastofnunar 1969-1971, en síðan sem fastráðinn kennari við eðlisfræðiskor Háskólans frá og með haustinu 1971. Sem kennari hafði hann áfram starfsaðstöðu við Raunvísindastofnun, jafnvel eftir að hann fór á eftirlaun 2010.

Raunvísindastofnun Háskólans eins og hún leit út á tuttugu ára afmælinu árið 1986. Þorsteinn var með skrifstofu á annarri hæð í þessu húsi í 55 ár, frá 1969 til 2024.

Segja má að Þorsteinn hafi komið til starfa á Íslandi nákvæmlega á réttum tíma. Undirbúningur BS-náms í raunvísindum var þá á lokastigi og kennslan hófst svo með formlegum hætti við Verkfræði- og raunvísindadeild haustið 1970. Um hinn langa aðdraganda að þessum tímamótum má lesa í grein Þorsteins frá 1987, Verkfræði og raunvísindi við Háskóla Íslands: Fyrstu skrefin.

Þorsteinn tók fullan þátt í uppbyggingu kennslunnar í eðlisfræði frá byrjun BS-námsins og kenndi mikið. Hann sagði síðar, að auk þeirra áhrifa sem hann varð fyrir í Kaupmannahöfn á sínum tíma, hafi hann lært einna mest um vinnubrögð við háskólakennslu af Þorbirni Sigurgeirssyni, sem hann kenndi með grunnnámskeiðin í eðlisfræði fyrstu árin.

Þorsteinn var ávallt málsvari bættra kennsluhátta og framlag hans til þróunnar eðlisfræðikennslu við Háskólann í gegnum tíðina var verulegt. Hann stóð og fyrir því að sett var á laggirnar nýtt námskeið í sögu og heimspeki vísindanna við Háskólann árið 1980.

Eins og áður sagði var Þorsteinn góður og viðmótsþýður kennari og iðinn við að útvega nemendum viðbótarnámsefni við kennslubækurnar í þeim tilgangi að auka færni þeirra og dýpka skilning á námsefninu. Eitt af fjölmörgum dæmum um þetta er sýnt á næstu mynd:

Þetta kver Þorsteins kom fyrst út 1989 og síðan tvisvar aftur, þá aukið og endurbætt. Hann gaf líka út Fylgikver um Eðlisfræði I (1996), Fylgikver um Eðlisfræði II (1994-95) og Fylgikver um Rafsegulfræði (1996), öll þrjú í samvinnu við Leó Kristjánsson jarðeðlisfræðing og Þorstein Arnalds. Með þessu kann Þorsteinn að hafa verið að fylgja fordæmi kennara sinna í Kaupmannahöfn, sem margir gáfu út fjölritaða kennslubæklinga og fyrirlestranótur fyrir nemendur sína.

Þrátt fyrir mikla kennslu, tók Þorsteinn fullan þátt í margvíslegum stjórnunar- og nefndarstörfum, einkum fyrir Háskólann, en einnig utan hans. Í slíkum önnum hefur það sennilega runnið fljótlega upp fyrir honum að lítill tími gæfist til að stunda rannsóknir í kennilegri öreindafræði hér heima. Til viðbótar voru þeir ekki margir fræðimennirnir við Háskólann sem hægt var að eiga samstarf við á því sviði. Þá voru samskipti við útlönd einnig með talsvert öðrum hætti en nú tíðskast.

Tiltölulega fljótlega hefur Þorsteinn því greinilega ákveðið að hætta rannsóknum í öreindafræði og helga sig kennslu og stjórnun við Háskólann ásamt alþýðufræðslu og þjóðfélagsmálum í víðum skilningi. Uppúr miðjum níunda áratugi síðustu aldar mótaði hann sér þó einnig nýjan rannsóknarvettvang með fjölþættum rannsóknum á vísindum norrænna manna á miðöldum. Meir um það hér á eftir.

Alþýðufræðsla

Fljótlega eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn fengu menn nasasjón af því, hvers vænta mætti frá Þorsteini á sviðum alþýðufræðslu og menningarumræðu.

Í ársbyrjun 1970 þýddi hann til dæmis texta tveggja sjónvarpsmynda. Önnur fjallaði um hinn þá nýbakaða Nóbelsverðlaunahafa Gell-Mann, en hin um undraljósgjafann leysi. Á árinu hélt hann tvö erindi um öreindafræði í hljóðvarpið, sá um þrjá þætti um eðlisfræði ásamt Erni Helgasyni í svokölluðu Skólasjónvarpi og skrifaði ásamt Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi eftirmála við bók Alberts Einstein, Afstæðiskenninguna, sem Þorsteinn Halldórsson eðlisfræðingur þýddi.

Árið eftir hóf hann fjölþætt greinaskrif í íslensk tímarit og dagblöð, nokkuð sem hann átti eftir að stunda reglulega það sem eftir var ævinnar.

Fljótlega fór hann jafnframt að halda erindi um margskonar efni fyrir almenning, áhugamannahópa og félög af ýmsu tagi. Einnig þýddi hann og/eða ritstýrði ýmsum áhugaverðum ritum fyrir hinn almenna lesanda. Þá er ótalið eitt merkasta framlag hans til alþýðufræðslu, sjálfur Vísindavefurinn.

Þorsteinn heldur erindi um kjarnorkumál í Norræna húsinu í apríl 1984. Sjá nánar hér.
Þetta merka verk þýddi Þorsteinn ásamt Guðmundi Finnbogasyni árið 1974.
Í gegnum tíðina stóð Þorsteinn að mörgum fyrirlestraröðum fyrir almenning um vísindaleg efni. Þar á meðal var röð sem kölluð var Undur veraldar. Erindin komu út á bók árið 1998 í ritstjórn Þorsteins.
Þorsteinn fylgdist nokkuð vel með raungreinakennslu í grunnskólum og fram-haldsskólum og hafði talsvert til þeirra mála að leggja. Árið 2001 þýddi hann og staðfærði Sól, tungl og stjörnur, kennslubók í stjörnufræði fyrir efstu bekki grunnskóla. Bókin var lengi notuð í íslenskum skólum.

Vísindavefurinn

Sennilega er Vísindavefurinn það verk sem Þorsteinn er lang þekktastur fyrir meðal Íslendinga. Þetta merka framlag hans til fræðslu og menningar á eflaust eftir að halda nafni hans á lofti um ókomna framtíð. Reyndar er vefurinn svo vel þekktur hér á landi að ég tel litla þörf á því að fjalla nánar um hann hér. Í staðinn vísa ég lesendum á fróðlegt viðtal við þorstein frá 2010 og sýni að auki nokkrar ljósmyndir tengdar vefnum:

Þáverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, opnar Vísindavefinn 29. janúar árið 2000. Með honum á myndinni eru Páll Skúlason þáverandi rector Háskóla Íslands og Þorsteinn. Mynd: Mbl.
Árið 2003 gáfu þeir Þorsteinn og Jón Gunnar Þorsteinsson, þá aðstoðarritstjóri Vísindavefsins, út úrval spurninga og svara, sem birtst höfðu á vefnum fram að þeim tíma.
Árið 2005 hlaut Þorsteinn heiðursviðurkenningu Menntamálaráðuneytisins fyrir áratuga starf og framúrskarandi árangur fyrir miðlun vísinda hér á landi.
Þorsteinn (annar frá hægri) hlaut ridd­ara­kross fálka­orðunn­ar árið 2011 „fyr­ir fram­lag til vís­inda, kennslu og miðlun­ar fræðilegr­ar þekk­ing­ar til al­menn­ings“.
Árið 2024 hlaut Vísindavefurinn viðurkenningu Rannís fyrir framúrskarandi vísindamiðlun. Myndin er frá afhendingu viðurkenningarinnar á Vísindavöku. Í miðjunni standa þeir Jón Gunnar Þorsteinsson, núverandi ritstjóri Vísindavefsins og Þorsteinn, upphafsmaður vefsins og fyrsti ritstjóri. Mynd: Kristinn Ingvarsson.

Tvö mikilvæg viðfangsefni

Orðaskráin

Þorsteinn var einstakur áhugamaður um íslenskt mál og nýyrðasmíði í vísindum. Að hans frumkvæði skipaði Eðlisfræðifélag Íslands sérstaka orðanefnd árið 1981 og hann tók að sér að vera formaður. Ég var svo heppinn að vera beðinn um að sitja í nefndinni, þegar ég hóf störf við Raunvísindastofnun, enda var félagsskapurinn ekki af verri endanum og formaðurinn drífandi.

Orðanefnd Eðlisfræðifélags Íslands í desember árið 1985. Frá vinstri: Einar H. Guðmundsson, Leó Kristjánsson, Þorsteinn, Sveinbjörn Björnsson, Jakob Yngvason og Páll Theodórsson. Sjá nánar hér.

Á meðan á starfinu stóð létu nefndarmenn oft reyna á nýyrði í kennslu, greinaskrifum og erindum um eðlisfræði. Í því sambandi má til dæmis nefna hina Ensk-íslensku orðabók Arnar og Örlygs frá 1984, þar sem þeir Þorsteinn og Jakob Yngvason sáu um þýðingar orða í eðlisfræði og stjörnufræði. Haustið 1985 kom svo afrakstur nefndarstarfsins út á prenti.  Um svipað leyti birti Þorsteinn ágæta grein um efnið í ráðstefnuriti Eðlisfræðifélagsins undir heitinu Íslenskan og eðlisfræðin.

Þegar nokkurra ára reynsla var komin á notkun Orðaskrárinnar og athugasemdir og nýjar tillögur höfðu borist nefndinni ákvað Þorsteinn að ganga frá endanlegri útgáfu. Hann fékk í lið með sér Viðar Guðmundsson til að sjá um uppsetningu skrárinnar á handhægu tölvutæku formi. Viðar er sjálfur eðlisfræðingur og hefur án efa lagt ýmislegt til mála, hvað nýyrði varðar. Skráin kom svo út sem bók árið 1996. Mér er til efs að þetta orðasafn hefði séð dagsins ljós á tuttugustu öld, ef ekki hefði komið til einbeittur vilji Þorsteins, úthald og dugnaður.

Lokaskrá orðanefndarinnar kom út árið 1996 í ritsjórn Þorsteins og Viðars Guðmundssonar.

Ólympíuleikarnir í eðlisfræði 1998

Eins og allir íslenskir eðlisfræðingar ættu að muna voru ólympíuleikarnir í eðlisfræði haldnir hér á landi dagana 2. til 10. júlí, 1998. Þorsteinn stjórnaði sérstökum starfshópi, sem samdi öll kennilegu verkefnin og hafði yfirumsjón með yfirferðinni á skriflegum lausnum keppenda. Þar sýndi hann sama skörungsskap og við orðaskrárvinnuna. Hann sat og í ritnefnd myndskreyttrar bókar um leikana:

  • Viðar Ágústsson (ritstj.), 1999: Proceedings of the 29th Internatioanl Physics Olympiad.
Ólympíuleikarnir í eðlisfræði voru haldnir í Reykjavík sumarið 1998. Því sem næst hver einasti eðlisfræðingur og eðlisfræðinemi á landinu kom að undirbúningi og/eða framkvæmd þeirra með einum eða öðrum hætti. Höfundur þessa fallega einkennismerkis leikanna er Stefán Einarsson.

Stutt yfirlit um leikana, ásamt öllum verkefnum sem keppendurnir þurftu að glíma við, er að finna í októberhefti tímaritsins International Newsletter on Physics Education frá 1998 (bls. 1,3 og 4-9).

Saga og heimspeki vísindanna – Kennsla og vísindamiðlun

Eitt af helstu afrekum Þorsteins, ásamt almenningsfræðslu, var að koma fræðasviðunum vísindasögu og vísindaheimspeki á kortið hér á landi, bæði innan Háskóla Íslands og utan. Áhugi hans á þessum fræðum hefur án efa vaknað á námsárunum við Eðlisfræðistofnun Háskólans í Kaupmannahöfn, þar sem allt frá upphafi hafði ríkt (og ríkir reyndar enn) verulegur áhugi á vísindasögu og vísindaheimspeki sem og tengslum vísinda og samfélags.

Þorsteinn mun hafa farið að sinna vísindasögu í frístundum um og upp úr 1975. Það varð til þess, að þegar Sigrún, kona hans, fór í meistaranám í klínískri félagsráðgjöf við Michiganháskóla í Ann Arbor á árunum 1977-78, slóst Þorsteinn með í för til að kynna sér betur vísindasögu og vísindaheimspeki sem fræðasvið. Þar lagði hann einnig fyrstu drögin að hinu mikla verki sínu Heimsmynd á hverfanda hveli. Þorsteinn sagði mér síðar, að sá af fræðimönnum Michiganháskóla sem hefði haft mest áhrif á sig hafi verið vísindaheimspekingurinn Lawrence Sklar. Hvernig það kemur fram í verkum hans er ég ekki fær um að dæma, en hitt veit ég að Þorsteinn var undir miklum áhrifum frá hugmyndum og verkum vísindafræðingsins Tómasar Kuhn.

Segja má að eftir heimkomuna hafi vísindasagan orðið helsta rannsóknarsvið Þorsteins. Hann hélt áfam að kenna eðlisfræðina af fullum krafti, en vann samhliða við að semja Heimsmyndina. Vorið 1980 kom hann svo, ásamt Mikael Karlssyni heimspekingi, á fót þverfaglegu námskeiði við Háskóla Íslands undir heitinu Þættir úr sögu og heimspeki vísindanna, sem fjöldi háskólanema hefur tekið í gegnum tíðina. Það lifir enn góðu lífi.

Heimsmynd á hverfanda hveli kom út í tveimur bindum á árunum 1986 til 1987 og vakti strax mikla athygli. Þorsteinn notaði verkið alla tíð sem kjölfestu við kennslu Þáttanna á sögu heimsmyndarinnar fram yfir daga Newtons, Um sögu annarra fræðigreina en stjörnufræði og eðlisfræði, til dæmis líffræði, lét hann nemendur að sjálfsögðu lesa önnur viðeigandi verk. Svo til allir, sem tóku þetta námskeið og ég hef talað við, hrósa því í hástert.

Hið mikla verk Þorsteins, Heimsmynd á hverfanda hveli, kom út í tveimur bindum á árunum 1986 og 1987. Myndin er af forsíðu seinna bindisins.

Umsagnir fræðimanna um verkið:

Hér er einnig við hæfi að gefa lesendum tækifæri til að kynna sér hugmyndir Þorsteins um mikilvægi vísinda, sögu þeirra og heimspeki (skráin er langt frá því að vera tæmandi):

Brautryðjandastarf Þorsteinn við rannsóknir, kennslu og kynningu á vísindasögu og vísindaheimspeki hér á landi varð á endanum til þess að stofnuð var meistaranámsleið í hugmynda- og vísindasögu við Háskóla Íslands haustið 2016. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að koma að undibúningi þess náms og gafst jafnframt tækifæri til að koma því af stað um það leyti sem ég varð emeritus.

Einstein og verk hans

Ég reyni stundum að telja sjálfum mér trú um að upphafið að Einsteinsbók Þorsteins megi rekja til Einsteinsársins 2005 og samræðna okkar þriggja, Þorsteins, Skúla Sigurðssonar vísindasagnfræðings og mín. Þar var meðal annars rætt um það að æskilegt væri að þýða greinar meistarans frá hinu svokallaða kraftaverkaári 1905 á íslensku og gefa þær allar út með skýringum. Á þeim tíma vorum við Skúli allt of önnum kafnir við önnur verkefni til að leggja í slíka vinnu, en Þorsteinn sagðist ætla að hugsa málið betur. Nokkrum árum síðar tilkynnti hann okkur að hann væri byrjaður á verkinu og hefði fengið sér til aðstoðar eðlisfræðingana Jakob Yngvason og Þorstein Halldórsson til að skrifa skýringar með greinum Einsteins. Bókin kom svo út á aldarafmæli Almennu afstæðiskenningarinnar árið 2015.

Einsteinsbókin frá 2015

Í starfi sínu við Háskóla Íslands kenndi Þorsteinn, eins og aðrir kennarar við eðlisfræðiskor, að sjálfsögðu bæði sérnámskeið um takmörkuðu afstæðiskenninguna sem og ýmis önnur námskeið þar sem hún kemur við sögu. Hann hélt einnig alþýðleg erindi um Einstein og kenningar hans og skrifaði um það efni fyrir almenning.

Rannsóknir á norrænum raunvísindum á miðöldum

Ekki veit ég hvenær Þorsteinn fék fyrst áhuga á fornnorrænni stjörnulist, en skömmu eftir að seinna bindi Heimsmyndarinnar kom út árið 1987 var hann byrjaður að kynna sér niðurstöður Stjörnu-Odda um göngu sólar. Oddi Helgason var fátækur vinnumaður, sem uppi var á fyrri hluta tólftu aldar og er talinn hafa gert framúrskarandi athuganir á sólargangi á Norðurlandi við erfiðar aðstæður.

Áður höfðu fræðimenn eins og  Kr. Kaalund og N. Beckman, Björn M. Ólsen, Þorkell Þorkelsson, O. S. Reuter, E. Zinner og Trausti Einarsson fjallað um Odda í rituðu máli (sjá t.d. hér), en Þorsteinn taldi sig hafa nýja og ólíka sýn á efnið, sem vert væri að kanna nánar.

Af þessu einfalda upphafi spratt svo meiriháttar rannsóknarverkefni um þekkingu norrænna miðaldamanna (einkum Íslendinga og Norðmanna) á stjörnufræði, tímatali og siglingum, sem Þorsteinn lagði stund á allt til æviloka. Seinni árin hafði hann öðlast svo mikla þekkingu á viðfangsefninu að hann var fenginn til að skrifa um það í erlendar alfræðibækur eins og The Oxford Encylopedia of Maritime History og Reallexikon der Germanischen Altertumskunde.

Hér eru talin upp nokkur helstu verk Þorsteins um þetta áhugaverða efni:

Minnisvarði um Stjörnu-Odda

Á aðalfundi Stjarnvísindafélags Íslands í árslok 2017 var samþykkt að heiðra minningu Stjörnu-Odda með því að reisa honum minnisvarða á heimaslóðum hans í Þingeyjarsveit. Í framhaldinu var svo ákveðið  að halda málþing honum til heiðurs, strax að lokinni afhjúpun. Þorsteinn og við Þórir Sigurðsson eðlisfræðingur vorum jafnframt skipaðir í sérstaka undirbúningsnefnd.

Eftir miklar og einstaklega fróðlegar umræður í nefndinni var ákveðið að minnisvarðinn skyldi reistur að Grenjaðarstað og málþingið haldið þar. Síðan var blásið til Sólstöðuhátíðar til minningar um Stjörnu-Odda hinn 20. júní 2020. Hátíðin fór fram samkvæmt áætlun og þar héldu Þorsteinn og fleiri erindi í tilefni dagsins. Finna má upptökur af erindunum á fyrrnefndri vefsíðu og þar eru einnig tenglar á skrifað erindi Þorsteins og minnisblað sem hann dreifði á staðnum.

Þorsteinn við minnisvarðann um Stjörnu-Odda í júní 2020. Mynd: Snævarr Guðmundsson.

Vísindi og velferð

Árið 2021 stofnuðu þau hjónin, Sigrún og Þorsteinn, sérstakan sjóð við Háskóla Íslands. Hann ber nafnið Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins og er ætlað að efla og styrkja nám, rannsóknir og ritstörf, annars vegar í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskyldumálefna og hins vegar í vísindafræðum, nánar tiltekið í vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Þegar þetta er skrifað hefur verið úthlutað úr sjóðnum í fjögur skipti.

xx
Frá formlegri stofnun styrktarsjóðsins árið 2021. Hjónin Þorsteinn og Sigrún skrifa undir skipulagsskrá sjóðsins og Jón Atli Benediktsson rektor fylgist með. Mynd: Kristinn Ingvarsson. Lýsingu á einni úthlutunarathöfninni (árið 2023) má finna hér.

Fjölmargir hafa nú þegar hlotið styrki úr sjóðnum og í framtíðinni eiga mun fleiri eftir að njóta aðstoðar hans til góðra verka. Þetta merka frumkvæði þeirra hjóna er verðugur minnisvarði um mikilvægt framlag þeirra til íslenskrar menningar og farsælan ferill þeirra beggja við Háskóla Íslands.

*

Viðauki: Drög að ritaskrá Þorsteins Vilhjámssonar

Posted in Eðlisfræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin

Í tilefni alþjóðlega skammtafræðiársins 2025

Víða um lönd er skammtafræðiárinu nú fagnað með greinaskrifum, fyrirlestrum, sýningum og öðrum skemmtilegheitum (sjá t.d. hér, hér, hér, hér, hér, hér og hér). Stór hluti þessara viðburða snýst um hina svokölluðu „aðra skammtabyltingu“, atburðarás sem að mestu er byggð á grunni hinnar „fyrstu“ og er sögð standa yfir um þessar mundir, eftir að hafa fengið byr undir báða vængi í kringum síðustu aldamót. Um er að ræða þróun þar sem fyrirbæri eins og skammtatengsl eru notuð við rannsóknir og hagnýtingu á skammtareikningum, skammtasamskiptum og skammtakönnun. Ég reikna fastlega með að íslenskir eðlisvísindamenn, og þá einkum sérfræðingar á áðurnefndum sviðum, haldi veglega upp á þessi tímamót hér heima, kannski með viðburðum í líkingu við þá sem áttu sér stað á eðlisfræðiárinu 2005, stjörnufræðiárinu 2009 og ljósárinu 2015.

Svo skemmtilega vill til að einmitt fyrir hundrað árum birtist fyrsta íslenska greinin um skammtalíkan Nielsar Bohr af atóminu. Höfundurinn var Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur (1891-1961), þá forstöðumaður Efnarannsóknastofu ríkisins og efnafræðikennari, bæði við Læknadeild Háskóla Íslands og Menntaskólann í Reykjavík. Grein Trausta var byggð á erindi, sem hann flutti á fundi Verkfræðingafélags Íslands hinn 29. apríl 1925 og bar titilinn Um atomkenningu Bohr’s.

Ég vil einnig geta þess, að í tilefni skammtafræðiársins er ég þessa stundina að taka saman færslu undir heitinu Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands. Ég er þegar búinn að setja gróft yfirlit á bloggsíðuna þar sem hægt er að nálgast tvær gagnlegar skrár (II og III). Þegar þetta er ritað er megintextinn (I) hins vegar enn í vinnslu, en ég vonast til að geta birt hann fljótlega.

Að lokum má nefna að drög að ritaskrá fyrsta „löggilta“ íslenska eðlisfræðingsins, Nikulásar Runólfssonar (1851-1898), eru einnig komin á bloggsíðuna.

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin

Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands: Efnisyfirlit

 

 

 

    I. (a) Forsaga.
       (b) Þættir úr sögu hinna nýju vísinda til upphafs sjöunda áratugs tuttugustu aldar.
              Birt í þremur hlutum:
              1. Inngangur og tímabilið 1896 -1919.
              2. Tímabilið 1920 – 1945.
              3. Tímabilið 1945 – 1961.

  II. Skrá yfir nokkra íslenska boðbera sem luku háskólanámi fyrir 1960.

 III. Skrá yfir nokkur íslensk alþýðurit frá tímabilinu 1896 til 1961.

 

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin

Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands Ia: Forsaga

Efnisyfirlit

Allt fram yfir miðja tuttugustu öld fellur saga eðlisvísinda (eðlisfræði og efnafræði) hér á landi fyrst og fremst undir svokallaða viðtökusögu, það er að segja umfjöllun um það hvernig ný þekking á þessu sviði barst hingað frá útlöndum og hvernig hún var kynnt og/eða nýtt hér heima (sjá til dæmis ýmsar greinar á bloggsíðu undirritaðs).

Fyrstu „löggiltu“ íslensku raunvísindamennirnir (samkvæmt nútímaskilningi) hlutu háskólagráður sínar á árunum í kringum 1900 og allir annað hvort frá Háskólanum í Kaupmannahöfn eða Fjöllistaskólanum (nú DTU), enda voru þessir skólar þá þjóðarskólar Íslendinga. Svo merkilega vill til, að það var einmitt á þessum sömu árum sem nútímaeðlisfræðin var að stíga sín fyrstu spor.

Reykjavík í kringum 1900. Danski fáninn blaktir við hún á Lærða skólanum og fleiri stöðum í bænum. Ljósmynd: Sigfús Eymundsson.

Í þessum kafla er ætlunin að gefa örstutt yfirlit yfir stöðu raunvísinda og tækni á Íslandi í kringum næstsíðustu aldamót. Í því sambandi verður meðal annars minnst á nokkra mikilvæga frumkvöðla og baráttu þeirra fyrir framförum á framangreindum sviðum.

Í næsta kafla (Ib) verða hins vegar tínd saman ýmis brot úr sögu nútímaeðlisfræði hér á landi á tímabilinu frá 1895 til 1960. Í tilefni skammtafræðiársins 2025 verður þar fyrst og fremst lögð áhersla á viðtökusögu skammtafræðinnar og tengdra greina. Þeim sem hafa meiri áhuga á að kynna sér hvernig hin megingrein grunneðlisfræðinnar, afstæðiskenningin, hélt innreið sína á Íslandi, má benda á eftirfarandi ritsmíðar:

Þess ber að geta, að margt annað hefur nú þegar verið birt um valda þætti úr sögu nútímaeðlisfræði hér á landi. Sem dæmi má benda á eftirfarandi rit og þær heimildir sem þar eru nefndar:

Þrátt fyrir þessi og ýmis önnur gagnleg framlög til söguritunar, hafa Íslendingar því miður aldrei náð að öðlast heildarsýn yfir sögu eðlisvísinda hér á landi. Á það einkum við um rannsóknir og kennslu sem og almenna innri þróun þessara greina. Ástæðan er einkum sú, að verulegt heimildamagn liggur enn ónotað og grafið á mismunandi stöðum (svo sem í  fundargerðum, skjalasöfnum, afmælisritum, minningargreinum, ráðstefnuritum, tímaritum, skýrslum, styrkumsóknum, bréfum af ýmsu tagi, ófullgerðum handritum, fréttabréfum, dagblöðum og ekki síst á hinum hvikula og óstöðuga veraldarvef). Hvorki hafa átt sér stað almennar né kerfisbundnar rannsóknir á slíku efni og því hefur ekki enn tekist að móta nægjanlega yfirgripsmikla eða djúpa þekkingu á hinni öru þróun þessara vísinda hér á landi. Það tímabil, sem nú er einkum þörf á að rannsaka betur, nær frá upphafi sjöunda áratugs tuttugustu aldar og eitthvað fram yfir síðustu aldamót.

Það er því skortur á rannsóknum sem er meginástæða þess að samtíningurinn í færslu Ib nær ekki yfir lengra tímabil en raun ber vitni. Um þessar mundir er þó örlítil von um úrbætur, því mér skilst að ritun sögu Raunvísindastofnunar Háskólans sé í undirbúningi. Þetta ófullkomna yfirlit mitt kemur sennilega ekki að miklum notum við það verkefni, þar sem innihaldið er lítið annað en stuttir sérvaldir kaflar úr sögu nútímaeðlisfræðinnar á Íslandi á árunum fram til 1960. Vonandi verður þetta framlag þó til þess að vekja aðra eðlisvísindamenn til umhugsunar um sögu sérgreina sinna hér á landi, einkum síðustu sextíu til sjötíu árin.

 

Aðdragandinn að nútímanum í raunvísindum á Íslandi

Vel fram yfir miðja nítjándu öld var gamla góða aflfræðin enn í heiðurssæti eðlisfræðigreina í hinum vestræna heimi ásamt vélhyggjunni sem henni fylgdi. Eftir því sem lengra leið á öldina var þó lögð vaxandi áhersla á varmafræði og síðar rafsegulfræði.

Lögmál varmafræðinnar leiddu meðal annars um tíma til svokallaðrar orkuhyggju, sem einkum var stefnt gegn vélhyggju og atómhyggju, en varð undan að láta í byrjun tuttugustu aldar. Hið sama er að segja um rafsegulhyggjuna, sem var nátengd hugmyndinni um hinn alltumlykjandi ljósvaka, ímyndað fyrirbæri sem margir vestrænir eðlisvísindamenn áttu í erfiðleikum með að segja skilið við fyrr en talsvert var liðið á tuttugustu öldina.

Upp úr miðri nítjándu öld var raunvísindaheimurinn í helstu Evrópulöndum farinn að taka á sig þá mynd sem við könnumst við í dag. Margir háskólar tóku að bjóða upp á nám til lokaprófs í helstu greinum raunvísinda, meðal annars stjörnufræði, stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði. Að prófi loknu fengu sumir nemendurnir störf á sérsviði sínu við háskóla eða óháðar rannsóknarstofnanir, sem oftar en ekki tengdust atvinnulífinu. Aðrir urðu kennarar við ýmsa sérskóla og/eða framhaldsskóla þess tíma eða sneru sér að öðrum verkefnum.

Upplýsingar um þessa nýju tíma tóku að ekki að teygja sig til Íslands fyrr en á síðustu áratugum nítjándu aldar og þá sennilega einkum með Hafnarstúdentum. Eðlisvísindi höfðu reyndar verið kennd formlega hér á landi frá stofnun Reykjavíkurskóla árið 1846, en framsetningin var lengi byggð á hefð sem ættuð var frá H.C. Örsted, einkum hvað varðaði eðlisfræðina. Fyrsti kennarinn í þessum fræðum var Björn Gunnlaugsson og kennslubókin sem hann notaði var Naturlærens mechaniske Deel eftir Örsted. Um þetta má lesa frekar hjá

Aðrir innviðir á þessu sviði voru engir, nema hvað efnafræði var kennd í Læknaskólanum frá stofnun,1876. Hann varð síðan að Læknadeild Háskóla Íslands árið 1911.

Til viðbótar má nefna að fréttir af nýjungum í raunvísindum bárust hingað seint og illa, enda háðar millilandasiglingum þess tíma.

 

Alþýðufræðsla

Eins og lesa má um í ýmsum greinum höfundar á bloggsíðunni Brot úr sögu raunvísinda á Íslandi bárust ekki aðeins erlendir þekkingarmolar úr stærðfræði og stjörnufræði hingað til lands á fyrri öldum, heldur einnig slitur úr eðlisvísindum þess tíma (hér er átt við greinar sem nú heita eðlisfræði og efnafræði) og margs konar fróðleikur um ríkin þrjú sem kennd eru við dýr, jurtir og steina. Það var hinsvegar ekki fyrr en í lok átjándu aldar sem lesefni um það svið menningarinnar sem við nú köllum raunvísindi birtist fyrst á prenti á móðurmálinu. Til að sjá hverskonar efni um eðlisvísindi stóð mönnum til boða, er hér birtur listi yfir nokkur helstu verkin frá tímabilinu 1782-1895:

Upplýsingartíminn: 1782-1850

Magnús Stephensen (1762-1833) og Sveinn Pálsson (1762-1840). Sjá meira hjá Einari H. Guðmundssyni, 2017: Magnús Stephensen og náttúrunnar yndislegu fræði.

 

Seinni hluti nítjándu aldar: 1850-1895

  • Fischer, J.G., 1852: Eðlisfræði. Magnús Grímsson þýddi ur dönsku.
  • Roscoe, H.E., 1879: Efnafræði. Benedikt Gröndal þýddi.
  • Stewart, B., 1880: Eðlisfræði. Halldór Kr. Friðriksson þýddi.
  • Benedikt Gröndal, 1886: Efnafræði. Aftast er skemmtilegt yfirlit yfir sögu greinarinnar (bls. 67-76).
  • de Parville, H. , 1891-1893: Hvers vegna? Vegna þess! Spurningakver náttúruvísindanna. Guðmundur Magnússon læknir þýddi úr dönsku. Bókin var endurútgefin 1910.
  • Schmidt, K., 1895: Kennslubók í náttúrufræði handa alþýðuskólum (1895). Þýðing Jóns Þórarinssonar á bók Schmidts, Naturlærens Begyndelsesgrunde: En Lærebog til Brug for Borger- og Almueskoler.

Yfirlit yfir ýmsar eðlisvísindabækur seinni tíma er að finna hjá:

 

Boðberar eðlisvísinda í kjölfar Björns Gunnlaugssonar

Tveir náttúrufræðingar

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826-1907; kenndi við Lærða skólann 1874-1883) og Þorvaldur Thoroddsen (1855-1921; starfaði á Íslandi sem vísindamaður og kennari við Möðruvallaskóla og Lærða skólann 1880-1895). Fyrir utan náttúrufræðina höfðu þeir báðir lært talsvert í efnafræði en lítið sem ekkert í eðlisfræði.

Vorið 1852 birti spekingurinn Björn Gunnlaugsson stutta grein í Nýjum tíðindum undir heitinu Lýsing á ókenndum fiski. Benedikt Gröndal, sem lagt hafði stund á náttúrfræði við Hafnarháskóla í nokkur ár, sá ástæðu til að leiðrétta þennan fyrrum kennara sinn í sama blaði með Athugasemd við lýsingu á ókenndum fiski. Mun það hafa verið hans fyrsta grein um náttúruvísindi. Innihald þessara skoðanaskipta skipir ekki máli hér, en í lok greinar sinnar segir Benedikt:

Að endingu finnst mjer allir skyldir til, að kunna öllum þeim þakkir, sem hafa sent hingað lýsingar af ókunnum dýrum eða náttúruhlutum. Það er líka harla gleðilegt, að vita af þeim mönnum, sem gleðja sig yfir náttúrunni, og dýrð hennar, og sem vilja öðlast skilning á henni. Ef slík löngun þróast, þá mætti vel vera, að bókmenntasaga vor ekki yrði eins fátæk, eða jafnvel örsnauð, af ritum um eðli náttúrunnar.

Þó jeg nú ekki í þessu efni geti fallizt á mál yfirkennara herra Gunnlögsens, þá get jeg samt ekki skilizt við þessa litlu ritgjörð, fyr en jeg er búinn að láta í ljósi gleði mína yfir því, hvorsu mikinn þátt hann allt af hefir tekið og tekur enn í því, að gera almenningi skiljanlega marga hluti náttúrunnar, sem fyrir augun bera. Það getur vel verið, að sá, sem svo fúslega og stöðuglega lætur sjer annt um þessa hluti, gjöri meira að verkum, en margur heldur; því á þekkingu á náttúrunni er þekking á lífinu grundvölluð, og á náttúrunni er velmegan þjóðanna byggð. En náttúran er jafn voldug og mikil í hinu smáa, sem hinu stóra. 

Benedikt lét ekki sitja við orðin tóm, því auk pistla í tímariti sínu Gefn gaf hann út eftirfarandi fræðslurit á kennslubókarformi: Steinafræði og jarðarfræði (1878), Dýrafræði (1878; sjá aftast), Efnafræði eftir H. E. Roscoe (1879), Landafræði: löguð eptir landafræði Erslevs og samin eptir ýmsum öðrum bókum (1882) og Efnafræði (1886). Löngu eftir hans dag voru hinar fallegu dýramyndir hans svo gefnar út í bókunum Dýraríki Íslands (1975) og Íslenskir fuglar (2011).

Eftir því sem ég best veit varð Benedikt fyrstur Íslendinga til að kynna löndum sínum litrófsmælingar og mikilvægi þeirra í stjörnufræði og efnafræði:

Í grein sinni um sólina fjallar hann einnig á skemmtilegan hátt um ljós sem bylgjuhreyfingu í ljósvakanum og færir rök fyrir því að sólin sé glóandi heitur lofthnöttur. Nánari umfjöllun um  verkið og fræðilegan bakgrunn þess er að finna í eftirfarandi grein:

Segja má að náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen hafi tekið við kynningarkeflinu af Benedikt með allmörgum alþýðlegum greinum um framfarir í stjarnvísindum, til viðbótar öllu öðru prentuðu efni, sem þessi ótrúlega afkastamikli höfundur sendi frá sér um náttúruvísindi almennt, og ekki síst jarðfræði. Meðal annars fjallaði hann um hina nýju störnufræði í tveimur greinum, fljótlega eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn árið 1880:

Í greininni frá 1882 fjallar Þorvaldur um svipað efni og Benedikt tíu árum áður, en mun ítarlegar og af meiri nákvæmni. Mér finnst þó einna mikilvægast að á bls. 38-49 er rætt um hina nýju varmafræði á alþýðlegan hátt (athugið að þar er orðið kraftur aðallega notað yfir  það hugtak sem í dag er kallað orka). Hann beitir síðan varmafræðinni til að útskýra ýmsa þætti í gerð og þróun sólar, meðal annars myndun hennar samkvæmt þokukenningunni og takmarkaðan aldur. Eftir því sem ég best veit, er þessi hluti af grein Þorvalds fyrsta prentaða umfjöllunin um varmafræði nítjándu aldar á íslensku.

Talsvert hafði verið fjallað um þokukenninguna áður, meðal annars hjá Jónasi Hallgrímssyni í greininni Um eðli og uppruna jarðarinnar (1835, bls. 114-118) og Páli Sveinssyni í Alheiminum (1860, bls. 91-93).

Að mínu mati er eftirfarandi teikning frá 1885 þó ein athyglisverðasta íslenska heimildin um þetta efni, sem varðveist hefur frá seinni hluta nítjándu aldar:

Teikningin sýnir myndun sólkerfisins samkvæmt þokukenningunni. Hún er úr bréfi sem Manni (Ármann Sveinsson), yngri bróðir Nonna (Jóns Sveinssonar), sendi móður sinni, Sigríði Jónsdóttur, 30. mars 1885, hálfu ári áður en hann dó úr tæringu í Belgíu, aðeins 24 ára. Í bréfinu er meðal annars að finna allítarlegar lýsingar á því hvernig sól og frumreikistjörnur [mynd 6] verða til úr gríðarstórum „gufuhnetti“ [mynd 1] fyrir flókið samspil „frádragningarablsins“ (miðflóttakraftsins) og „aðdragningarablsins“ (þyngdarkraftsins) [myndir 2-5]. Bréfið endurspeglar helsta áhugamál Manna, stjörnufræði, og myndin sýnir hversu góður teiknari hann var. Mér er ekki kunnugt um hvaða fyrirmynd(ir) hann hefur stuðst við. Sjá nánar í bókinni  Pater Jón Sveinsson – Nonni eftir Gunnar F. Guðmundsson (bls. 222-229).

 

Tveir menningarheimar

Á dögum Þorvalds áttu raunvísindi undir högg að sækja hér á landi. Þá þegar var komin upp ákveðin togstreyta milli menningarheimanna tveggja, sem í dag eru kenndir við hugvísindi og raunvísindi. Í Minningabók II frá 1923 (bls. 129) kvartar Þorvaldur til dæmis yfir viðbrögðum íslenskra menntamanna við tilraunum sínum til að fræða almenning:

Í byrjun ömuðust ýmsir við náttúrufræðisritgjörðum þessum. Þegar ritgjörð mín „Nokkur orð um jarðfræði, kom út 1880, þótti sumum hún koma í bága við sköpunarsögu Gamla Testamentisins, hneyksluðust á því, og töldu það myndi leiða til trúleysis. Halldór Friðriksson ilskaðist […] út úr grein minni um „Golfstrauminn“. Arnljótur Ólafsson gerði bæði í blöðum og á þingi skop að ritgjörð minni um sólina, og virtist þó lítil ástæða vera til þess, þar var aðeins skýrt frá nýjustu rannsóknum vísindamanna um eðli ljóssins. Yfirleitt var það skrítið, að menntamenn skyldu vera að amast við því, þó reynt væri að fræða alþýðuna um ýmsar nýjungar úr vísindanna heimi. Alþýðan sjálf tók ritgjörðunum mjög vel.

Í fyrra hefti Minningabókarinnar (I, 1922, bls. 130) segir Þorvaldur meðal annars um Jón Sigurðsson (núverandi þjóðardýrling Íslendinga) sem hann bar annars talsverða virðingu fyrir:

Þó átti [Jón] sammerkt í því við flesta samtíðarmenn sína íslenzka, að hann var alveg ófróður í náttúruvísindum. […] Oftar en einu sinni braut eg upp á því við [hann], að nauðsynlegt væri, að fræða íslenzka alþýðu um náttúru-vísindi og hinar nýjari uppgötvanir vísindanna, tók hann því nokkuð dauflega og sagði eitt sinn: „þeir hafa sögurnar og þurfa í rauninni ekki annað“.

Í Dægradvöl (útgáfunni frá 1923, bls. 259-60) segir Benedikt Gröndal einnig frá samskiptum sínum við Jón Sigurðsson í kringum 1860:

Svo talaðist til milli mín og Jóns Sigurðssonar, að jeg skildi sækja um styrk til að snúa á íslenzku Berlins Læsebog I Naturlæren; jeg fjekk styrkinn […] með því móti að jeg fengi vissu hjá bókmenntafjelaginu, að það gæfi út bókina, þegar jeg væri búinn. Jeg fjekk Attest upp á þetta hjá Jóni Sigurðsyni, áður en jeg fór að rita, og man jeg vel að í því stóð, að ekkert mundi verða til hindrunar fyrir að fjelagið gæfi út handritið. […] Jeg sat við þetta verk í eitt ár; en þegar jeg hafði lokið því, þá fór jeg til Jóns Sigurðssonar og beiddi hann nú að láta fjelagið gefa út bókina, minnti hann á attestið. Þá mundi hann ekki – eða þóttist ekki muna – að hann hefði gefið neitt attest, og sagði að jeg skyldi sýna sjer það. Jeg fór upp í Ministeriið [sem veitt hafði styrkinn] og ætlaði að fá attestið, en þá fanst það hvergi. Þá var ekki nærri því komandi, að fjelagið tæki af mjer handritið, þó það ætti að fá það fyrir ekkert. […] Þannig fór allt þetta að forgörðum, jeg eyðilagði handritið, af því ég hafði einga von um að það mundi nokkurntíma verða gefið út.

Bókin sem hér um ræðir er sennilega danska þýðingin á bók sænska efnafræðingsins N.J. Berlins, Läsebok i Naturläran för Sveriges Allmoge. Hún kom fyrst út í Svíþjóð 1852 og ýmsar útgáfur af henni voru fljótlega þýddar á norsku, dönsku, finnsku og þýsku. Hér er fjórða sænska útgáfan frá 1860. Fróðlegt er að bera þetta verk saman við Dýrafræði Benedikts frá 1878.

Frekari umfjöllun um rimmu raunvísindamanna og hugvísindamanna fyrri tíma má meðal annars finna í eftirfarandi greinum:

 

Tveir íslenskir raffræðingar

Íslenska orðið rafkraftur mun fyrst hafa birst á prenti í grein Magnúsar Stephensen Um meteora árið 1782, og elsta prentun orðsins segulsteinn, sem mér er kunnugt um, er í Húspostillu Gísla Þorlákssonar Hólabiskups frá 1665. Að sjálfsögðu hafa Íslendingar þekkt til fyrirbæranna rafmagns og segulmagns mun lengur, en það var þó ekki fyrr en 1852 sem þeir fyrst gátu lesið sér til gagns um þessi náttúrufyrirbæri á íslensku. Það var í tímamótaritinu Eðlisfræði eftir J.G. Fischer, sem Magnús Grímsson þýddi með aðstoð Björns Gunnlaugssonar.

Þótt Íslendingar hafi kannski ekki haft mikið veður af hinni byltingarkenndu sameiningu Maxwells á raffræði og segulfræði í eina kenningu, rafsegulfræði, þá bárust hingað fréttir á síðustu áratugum nítjándu aldar af undraverðum uppgötvunum, byggðum á sívaxandi þekkingu á eðli rafmagns og segulmagns. Hér eru tvö dæmi:

Tveir ungir Íslendingar í Vesturheimi heilluðust af hinni nýju tækni og eru sennilega með fyrstu mönnum, fæddum hér á landi, sem höfðu tækifæri til að fylgja þeim áhuga eftir. Ég tel rétt að nefna þá hér, þótt þeir séu nú flestum gleymdir.

Frímann B. Arngrímsson (1855-1936) til vinstri og Hjörtur Þórðarson (1867-1945).

Frímann B. Arngrímsson fluttist 19 ára til Vesturheims árið 1874. Hann mun hafa verið fyrstur Vestur-Íslendinga til að stunda háskólanám og útskrifaðist árið 1885 frá Manitobaháskóla með B.A. gráðu í náttúruvísindum, þar á meðal eðlisfræði, efnafræði og stærðfræði. Hann heimsótti Ísland 1894-95 og predikaði rafvæðingu landsins fyrir daufum eyrum. Dvaldi eftir það erlendis um skeið, fyrst í Bretlandi og síðar Frakklandi, en skrifaði heim um framfaramál fyrir Ísland. Frímann fluttist að lokum til Akureyrar 1914. Þar gaf hann út tímaritið Fylki í tíu ár og hélt áfram baráttunni fyrir framförum í íslensku samfélagi. Lítill sem enginn sýnilegur árangur varð þó af framtaki hann og hann dó vonsvikinn maður á Akureyri árið 1936.

Ári á undan Frímanni fluttist Hjörtur Þórðarson ásamt foreldrum sínum til Vesturheims. Hann var þá sex ára gamall. Hjörtur átti farsæla ævi í Bandaríkjunum, þar sem hann gekk undir nafninu Chester Thordarson. Ungur fékk hann áhuga á eðlisfræði við að lesa Eðlisfræði Fischers, sem móðurbróðir hans Magnús Grímsson hafði þýtt á sínum tíma. Hann settist seint á skólabekk og var orðinn tvítugur þegar hann lauk gagnfræðaprófi (13 ára prófi?; 7th grade). Hjörtur, sem var einstaklega vel gefinn, ákvað þá að hætta skólagöngu og mennta sig sjálfur með lestri og verklegri vinnu. Ekki leið á löngu þar til hann var komin í fremstu röð raffræðinga í Bandaríkjunum og vann meðal annars hjá Edison um tíma. Árið 1895 stofnaði hann svo eigið fyrirtæki, Thordarson Electric Manufacturing Company, til framleiðslu rafbúnaðar, einkum þó spenna af ýmsu tagi. Hjörtur varð vel þekktur í Bandaríkjunum og jafnframt hér á landi, þótt hann kæmi aðeins einu sinni til Íslands í stutt frí (í ágúst 1911). Til vitnis um frægð hans hér á landi má nefna að hann var gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 1930 og níu árum síðar sæmdi Kristján konungur tíundi hann stórkrossi fálkans.

 

Frumherjar á sviði raunvísinda og verkfræði

Þrír áhrifamiklir kennarar

Vegna hins mikilvæga hlutverks þeirra sem kennara við Lærða skólann í lok nítjándu aldar vil ég nefna hér sérstaklega þá Þorvald Thoroddsen, Björn Jensson og Bjarna Sæmundsson. Þessir menn lögðu þann grunn, sem fyrstu „löggiltu“ íslensku náttúruvísindamennirnir byggðu háskólanám sitt á.

Björn Jensson kennari (1852-1904; kom til starfa á Íslandi 1883) og Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur (1867-1940; kom til starfa á Íslandi 1894).

Áður hefur verið minnst á Þorvald Thoroddsen, og ég reikna með að allir hafi einhverja hugmynd um hin merku vísindaafrek hans. Hann þótti góður kennari, bæði á Möðruvöllum (1880-1884) og við Lærða skólann á árunum 1885 til 1895. Meðal nemenda hans í náttúrufræði voru þeir Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur, Helgi Jónsson grasafræðingur, Helgi Pjeturs jarðfræðingur og byggingarverkfræðingarnir Sigurður Pétursson og Knud Zimsen. Sá sem kenndi öllum þessum mönnum stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði var hins vegar Björn Jensson.

Þegar Þorvaldur hætti og hvarf til Kaupmannahafnar tók Bjarni Sæmundsson við náttúrufræðikennslunni, en Björn hélt áfram að kenna sömu þrjár greinarnar og áður. Meðal nemenda þeirra Björns og Bjarna má nefna frumkvöðlana Jón Þorláksson byggingarverkfræðing, Ásgeir Torfason efnaverkfræðing, Þorkel Þorkelsson eðlisfræðing og Ólaf Daníelsson stærðfræðing.

Björn Jensson, dóttursonur Björns Gunnlaugssonar, lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Fjöllistaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1878, en varð síðar að hverfa frá námi vegna vanheilsu. Þegar heim var komið gerðist hann kennari við Lærða skólann árið 1883, og var lengi helsti stærðfræðikennari skólans, auk þess að kenna bæði eðlisfræði og stjörnufræði. Hann þýddi bók um veðurfræði (1882) og aðra um stjörnufræði (1889) auk þess að skrifa um þvergöngu Venusar (1875) og þangbrennslu (1882).

Bjarni Sæmundsson er einn merkasti náttúrufræðingur sem Ísland hefur átt. Hann lauk prófi í náttúrufræði og landafræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1894 og gerðist kennari við Lærða skólann sama ár. Þar kenndi hann til 1923, en gat eftir það helgað sig rannsóknum og ritstörfum. Nú á dögum er hann sennilega best þekktur sem fiskifræðingur, en áður fyrr einnig sem höfundur fjölda kennslubóka um náttúrufræði fyrir lægri skólastig (skrá yfir rit hans er hér og einnig hjá Leitum). Ég á eftir hann Ágrip af náttúrufræði handa barnaskólum (3ju útg. frá 1908) og þar eru meira að segja kaflar um eðlisfræði (bls. 100-125) og efnafræði (bls. 126-134).

 

Iðnbylting á Íslandi um og upp úr 1900

Þó að fyrsta iðnbyltingin hafi að mestu farið fram hjá Íslendingum á sínum tíma má segja að um og upp úr aldamótunum 1900 hafi átt sér stað séríslensk iðnbylting, sem var eins konar blanda af af annarri iðnbyltingunni og þeirri fyrstu. Andi bjartsýnis og framfara sveif yfir vötnunum um alla Evrópu, þar á meðal hér á landi (allavega fram að fyrri heimsstyrjöldinni), hreif með sér unga sem aldna og hvatti þá til uppbyggilegra og nytsamlegra verka þjóð sinni til heilla.

Í endurminningum sínum, Við fjörð og vík (1948), lýsir Knud Zimsen verkfræðingur tíðarandanum hér á landi í kringum 1900 á eftirfarandi hátt (bls. 95):

[Á Íslandi var reyndar enn] lítið um verklegar framkvæmdir og þær flestar svo smávægilegar, að naumast þótti taka því, að láta verkfræðinga sjá um þær. Ég hafði þó hugboð um, að á því yrði breyting og hún fyrr en varði. Hressandi vorgola gerði vart við sig í þjóðlífinu, menn voru farnir að draga léttar andann. Eins og gömlu mennirnir vissu á sig veður, svo skynjuðu menn nú, að ný öld framfara var í aðsigi á Íslandi, eða öllu heldur ætti að orða það svo, að fyrsta framfaraöld þjóðarinnar væri að halda í garð.

Annað dæmi um hið nýja hugarfar kemur fram í lokaorðum greinar verkfræðinemans Jóns Þorlákssonar frá 1899, Framfarir náttúruvísindanna á síðustu árum:

En þegar vér einu sinni erum komnir á lagið með að nota fossaflið og rafmagnið, hvað skyldi þá verða því til fyrirstöðu, að vér notum það líka til að knýja járnbrautarlestir? – En til þess að koma þessu fram, er þekking á náttúrunni, öflum hennar og lögmálum, bráðnauðsynleg, enda eru nú augu manna að opnast fyrir því, að náttúruvísindin eru miklu nauðsynlegri og nytsamlegri en margt annað, sem hingað til hefur verið haft í hávegum. Vér skulum því trúa því og treysta, að náttúruvísindin muni nema land hjá oss innan skamms, og færa allri þjóðinni ljós og hita, líf og fjör. 

Segja má að vélvæðing á Íslandi hefjist með sjósetningu fyrsta vélbátsins árið 1902. Tveimur árum síðar kom svo fyrsti bíllinn til landsins og fyrsta vélhjólið fljótlega í kjölfarið. Fyrsti gufuknúni togarinn kom 1905, fyrsta dráttarvélin 1918 og fyrsta flugvélin 1919.

Hvað rafvæðingu varðar mun hafa verið kveikt á fyrsta rafmagnsljósinu í Reykjavík árið 1900 og fyrsta vatnsaflsstöðin tók til starfa í Hafnarfirði 1904.

Þá má í lokin geta þess að fyrstu loftskeytin voru móttekin hér á landi árið 1905 og árið eftir var fyrsti sæstrengurinn dreginn á land á Seyðisfirði.

Víða má lesa um tækniþróunina á Íslandi á þessum árum og hér er stuttur listi til að koma lesendum á sporið:

 

Fyrstu verkfræðingarnir

Hér verða einungis taldir upp fyrstu sex íslensku verkfræðingarnir. Þeir voru allir menntaðir við Fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn og hófu störf hér á landi á tímabilinu 1893 til 1906. Þeim lesendum sem vilja vita meira um ævi þeirra og störf má benda á bók Sveins Þórðarsonar frá 2002, Frumherjar í verkfræði á Íslandi. Um landsverkfræðingana Sigurð Thoroddsen, Jón Þorláksson og Thorvald Krabbe má jafnframt lesa í grein  Þorsteins Þorsteinssonar frá 1993, Landsverkfræðingar 1893-1917.

Áhugasamir lesendur geta einng fræðst nánar um námsvettvang þessara frumkvöðla í Kaupmannahöfn í ritunum Beretning om Den Polytekniske Læreanstalt 1883 til 31/7 1910  og  Den Polytekniske Læreanstalt. Samlinger, Laboratorier m.m., sem bæði komu út árið 1910.

Byggingarverkfræðingarnir Sigurður Thoroddsen (1863-1955; kom til starfa á Íslandi 1893) og Sigurður Pétursson (1870-1900; kom til starfa á Íslandi 1899).

 

Byggingarverkfræðingarnir Knud Zimsen (1875-1953; kom til starfa á Íslandi 1902) og Thorvald Krabbe (1876-1953; kom til starfa á Íslandi 1905).

 

Jón Þorláksson byggingarverkfræðingur (1877-1935; kom til starfa á Íslandi 1903) og Ásgeir Torfason efnaverkfræðingur (1871-1916; kom til starfa á Íslandi 1906).

Mikið efni er til um sögu verkfræðinnar á Íslandi, allt frá upphafi. Hér eru nokkur almenn rit til frekari athugunar:

  • Ritröð Verkfræðingafélags Íslands. Byrjaði að koma út 2002. Ákaflega fróðlegur bókaflokkur. Sjálfur hef ég haft mest not af heftum I og III eftir Svein Þórðarson: Frumherjar í verkfræði á Íslandi (2002) og Afl í segulæðum: Saga rafmagns á Íslandi í 100 ár (2004). Einnig VII. heftinu, VFÍ í 100 ár: Saga Verkfræðingafélags Íslands (2012).
  • Verkfræðingatal. Kom fyrst úr 1956. Síðan hafa komið þrjú önnur (1966, 1981 og 1996). Í síðustu útgáfunni frá 1996 er grein Sveinbjörns Björnssonar, 1996: „Menntun íslenskra verkfræðinga“, bls. 12-22.
  • Jón Guðnason, 1962: Verkfræðingafélag Íslands 1912-1962.
  • Einar Pálsson, 1992: „Verkfræðingafélag Íslands 1912-1962“. Í Guðmundur G. Þórarinsson & Vífill Oddsson (ritstj.), Verkfræðingafélag Íslands 80 ára: 1912-1992, bls. 7-10.

 

Fyrstu eðlisvísindamennirnir

Fyrstu íslensku eðlisvísindamennirnir voru við nám í Kaupmannahöfn á svipuðum tíma og fyrstu íslensku verkfræðingarnir. Þeir komu allir til starfa hér á landi nema sá fyrsti, Nikulás Runólfsson, sem reyndar lést fyrir aldur fram árið 1898.

Nikulás Runólfsson eðlisfræðingur (1851-1898; starfaði erlendis) og Ásgeir Torfason efnafræðingur (1871-1916; kom til starfa á Íslandi 1906). Sjá frekari umfjöllun um þá Nikulás og Ásgeir í færslu II.

 

Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur (1876-1961; kom til starfa á Íslandi 1908) og Ólafur Daníelsson stærðfræðingur (1877-1957; kom til starfa á Íslandi 1904). Sjá frekari umfjöllun um þá Þorkel og Ólaf í færslu II.

Af þeim þremur síðastnefndu kom Ólafur Daníelsson fyrstur heim. Það var strax að loknu magistersprófi árið 1904. Engar viðunandi stöður lágu þá á lausu og fyrstu árin mun hann hafa samið fyrstu stærðfræðikennslubók sína af mörgum, Reikningsbókina, sem kom út 1906. Jafnframt vann hann að doktorsritgerð, sem hann svo varði í Kaupmannahöfn árið 1909. Sennilega hefur hann einnig tekið nemendur í aukatíma, því fasta stöðu fékk hann ekki fyrr en hann var ráðinn við Kennaraskólann árið 1908. Þar kenndi hann í rúman áratug, eða þangað til stærðfræðideildin var stofnuð við Lærða skólann árið 1919. Hann tók þá við stærðfræðikennslunni þar, fyrst sem stundakennari en var svo fastráðinn 1920.

Ásgeir Torfason kom heim 1906 eftir að hafa unnið um þriggja ára skeið að loknu verkfræðiprófi við efnarannsóknir í Danmörku. Hann fékk strax stöðu sem forstöðumaður við hina þá nýstofnaðu Efnarannsóknastofu ríkisins. Jafnframt tók hann að sér efnafræðikennsluna við Læknaskólann og hélt henni áfram eftir að skólanum var breytt í Læknadeild Háskóla Íslands árið 1911.

Að loknu magistersprófi vann Þorkell Þorkelsson að rannsóknum á íslensku hveralofti við Fjöllistaskólann í nær fjögur ár. Heim kom hann árið 1908 og gerðist kennari við Möðruvallaskóla. Þegar skólahúsið brann 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar og kallaður Gagnfræðaskólinn á Akureyri. Þar kenndi Þorkell til 1918, en fluttist þá til Reykjavíkur og varð forstöðumaður hinnar nýstofnuðu Löggildingarstofu mælitækja og vogaráhaldaVeðurstofa Íslands var stofnuð sem deild í Löggildingarstofunni árið 1920, en varð sjálfstæð stofnun 1925 þegar Löggildingarstofan var lögð niður. Við þá breytingu varð Þorkell fyrsti Veðurstofustjórinn. Hann kenndi einnig eðlisfræði við Lærða skólann á árunum 1920 til 1928 og átti, ásamt Ólafi Daníelssyni, frumkvæðið að stofnun stærðfræðideildar skólans.

Ferill þessara þriggja frumherja er eins og uppskrift að ástandi, sem átti eftir að ríkja meðal raunvísindamanna hér á landi næstu sex áratugina eða svo. Efnafræðingar áttu almennt tiltölulega auðvelt með að fá vinnu við efnarannsóknir af ýmsu tagi, ýmist hjá opinberum stofnunum eða sjálfstæðum fyrirtækjum og gátu jafnframt sinnt kennslu ef þeim sýndist svo. Stærðfræðingar og eðlisfræðingar áttu hins vegar fáa aðra kosti en gerast kennarar og sinna rannsóknum í frístundum, ef þeir höfðu þá þrek til þess. Þetta ástand hélst meira og minna óbreytt þar til raunvísindindagreinarnar náðu fótfestu sem sjálfstæðar rannsóknar- og kennslueiningar við Háskóla Íslands um og upp úr miðjum sjöunda áratugi tuttugustu aldar. Sjá í þessu sambandi nýlegar færslur undirritaðas, annars vegar um eðlisfræði og hins vegar um efnafræði.

Og þá er kominn tími til að fjalla um nútímaeðlisfræðina. Það verður gert í næstu færslu (Ib).

 

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Óflokkað, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin

Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands II: Skrá yfir nokkra íslenska boðbera sem luku háskólanámi fyrir 1960

Efnisyfirlit

Flestir boðberanna voru sérfræðingar í eðlisfræði, efnafræði eða stærðfræði, þótt aðrir hafi einnig komið við sögu, meðal annars verkfræðingar, læknar og ýmsir áhugamenn um raunvísindi. Með hinu hátíðlega orði boðberi er hér átt við einstakling, sem öðlast hafði grunnþekkingu á a.m.k. einhverjum þáttum nútímaeðlisfræði og beitti henni, ýmist í eigin grunnrannsóknum eða hagnýtum tilgangi og/eða miðlaði henni til annarra, til dæmis í kennslu eða með ritsmíðum, ýmist frumsömdum eða þýddum, alþýðlegum eða fræðilegum (sjá t.d. III. hluta og ritaskrár einstakra manna hér á eftir).  –  Í eftirfarandi skrá er boðberunum raðað í aldursröð.

 

Nikulás Runólfsson (1851-1898) – fyrsti löggilti íslenski eðlisfræðingurinn

Cand. mag. í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1890. Starfaði aldrei sem eðlisfræðingur á Íslandi.

 

 Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur (1855-1921)

Hvarf frá námi í náttúrufræði (aðallega dýrafræði) við Kaupmannahafnarháskóla rétt fyrir lokapróf til að taka við kennaraembætti við Möðruvallaskóla 1880. Fluttist aftur til Kaupmannahafnar 1895.

 

Ásgeir Torfason (1871-1916) – fyrsti löggilti íslenski efnaverkfræðingurinn

Cand. polyt. í efnaverkfræði frá Fjöllistaskólanum í Kaupmannahöfn 1903. Kom til starfa á Íslandi 1906.

 

Ágúst H. Bjarnason heimspekingur (1875-1952) – áhugamaður um raunvísindi

Mag. art. í heimspeki frá Kaupmannahafnarháskóla 1901. Dr. phil. frá sama skóla 1911. Kom til starfa á Íslandi 1905.

 

Þorkell Þorkelsson eðlisfræðingur (1876-1961)

Cand. mag. í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1903. Kom til starfa á Íslandi 1908.

 

Ólafur Dan Daníelsson (1877-1957) – fyrsti löggilti  íslenski stærðfræðingurinn

Cand mag. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1904. Dr. phil. frá sama skóla 1909. Kom til starfa á Íslandi 1904.

 

Gunnlaugur Claessen röntgenlæknir (1881-1948)

Cand med. í læknisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1910. Dr. med. frá Karólínsku stofnuninni í Stokkhólmi 1928. Kom til starfa á Íslandi 1913.

 

Ásgeir Magnússon (1886-1969) kennari og fréttastjóri – áhugamaður um raunvísindi

Kennarapróf frá Flensborgarskóla 1908.

 

Trausti Ólafsson efnaverkfræðingur (1891-1961)

Cand. polyt. í efnaverkfræði frá Fjöllistaskólanum í Kaupmannahöfn 1921. Kom til starfa á Íslandi 1921.

 

Sigurkarl Stefánsson stærðfræðingur (1902-1995)

Cand. scient. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1928. Kom til starfa á Íslandi 1928.

 

Steinþór Sigurðsson (1904-1947) – fyrsti löggilti íslenski stjörnufræðingurinn

Mag. scient. í stjörnufræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1929. Kom til starfa á Íslandi 1929.

 

Björn Franzson (1906-1974) kennari, fréttamaður og rithöfundur – áhugamaður um raunvísindi

Stundaði nám í eðlisfræði og stærðfræði í Danmörku og Þýskalandi 1927-30, en tók ekki lokapróf. Kom til starfa á Íslandi 1930.

 

Trausti Einarsson stjarn- og jarðeðlisfræðingur (1907-1984)

Dr. phil. í stjörnufræði frá Göttingenháskóla 1934. Kom til starfa á Íslandi 1934.

 

Sveinn Þórðarson eðlisfræðingur (1913-2007)

Dr. phil. í eðlisfræði frá Jenaháskóla 1939. Kom til starfa á Íslandi 1939.

 

Guðmundur Arnlaugsson stærðfræðingur (1913-1996)

Cand. scient. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1942. Kenndi við MA 1936-39 en kom endanlega til starfa á Íslandi 1945.

 

Þorbjörn Sigurgeirsson eðlisfræðingur (1917-1988)

Mag. scient. í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1943. Kom til starfa á Íslandi 1947.

 

Magnús Magnússon eðlisfræðingur (1926-2024)

M.A. í eðlisfræði (skammtaefnafræði) frá Cambridgeháskóla 1952. Kom til starfa á Íslandi 1953.

 

Björn Bjarnason stærðfræðingur (1919-1999)

Cand. scient. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1945. Kom til starfa á Íslandi 1945.

 

Ari Brynjólfsson eðlisfræðingur (1926-2013)

Mag. scient. í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1954. Dr. phil. frá sama skóla 1973. Starfaði mest erlendis, aðallega í Bandaríkjunum.

 

Skarphéðinn Pálmason stærðfræðingur (f. 1927)

Cand. scient. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1954. Kom til starfa á Íslandi 1954.

 

Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðingur (1928-2018)

Cand. scient. í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1953. Kom til starfa á Íslandi 1953.

 

Páll Theodórsson eðlisfræðingur (1928-2018)

Mag. scient. í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1955. Kom til starfa á Íslandi 1958.

 

Steingrímur Baldursson efnaeðlisfræðingur (1930-2020)

Ph.D. í efnaeðlisfræði frá Chicagoháskóla 1958. Kom til starfa á Íslandi 1959.

 

Guðmundur Sigvaldason jarðefnafræðingur (1932-2004)

Dr. rer. nat. í jarðefnafræði frá Göttingenháskóla 1959. Kom til starfa á Íslandi 1961.

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Óflokkað, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin

Hvernig nútímaeðlisfræðin barst upphaflega til Íslands III: Skrá yfir nokkur íslensk alþýðurit á því sviði frá tímabilinu 1896 til 1961

Efnisyfirlit

Ítarlegar ritaskrár margra eftirfarandi höfunda er að finna í II. hluta.

 

Frá fyrstu fréttum af uppgötvun röngengeisla til stofnunar stærðfræðideildar Lærða skólans árið 1919

  • Nikulás Runólfsson, 1896: Merkileg uppgötvun. Sagan að baki uppgötvunar Röntgens rakin í örstuttu máli. Uppgötvuninni síðan lýst í jafnstuttu máli. Á eftir greininni er viðbót eftir ritstjórann, Valtý Guðmundsson: „stutt samantekt úr fréttablöðum“.
  • Jón Þorláksson, 1899: Framfarir náttúruvísindanna á síðustu árum. Lausleg þýðing á fyrielestri danska efnafræðingsins Júlíusar Thomsen. Meðal annars er fjallað um uppgötvanir á nýjum frumefnum og uppgötvun Röntgens.
  • G.B. (Guðmundur Björnsson læknir?), 1902: Röntgen. Ljósmynd af Röntgen er að finna á myndasíðu II.
  • Guðmundur Hannesson, 1903: Nýir geislar. Um „Becquerelsgeisla“.
  • Anon, 1903: Radium og önnur geisliefni I, II, III, & IV. Þýtt úr norska tímaritinu Kringsjaa.
  • Ólafur Daníelsson, 1905: Hvernig loftskeyti berast.
  • Þ.Þ. (Þorkell Þorkelsson?), 1909: Ernest Rutherford.
  • Þorvaldur Thoroddsen, 1910: Vísindalegar nýjungar og stefnubreytingar nútímans I, II, III. Í I er m.a. fjallað um atóm, sameindir og geislavirkni. Minnst á Thomson og rafeindina, ljósvakann og þyngd.
  • Ágúst H. Bjarnason, 1910: Efniskenningin nýja. Heimspekileg umfjöllun. Fjallað um eðli ljóssins, ljósvakann, atóm og sameindir, ný frumefni, litróf og litrófsmælingar, hvirfilatóm Thomsons. Vísað í bók Crookes um geislandi efni frá 1879, rætt um Hertz og Marconi, katóðugeisla, Thomson og rafeindina, geislavirkni.
  • K.L., 1912-13: Radíum I & II.
  • Steingrímur Matthíasson, 1913: Undramálmurinn Radíum og geislamagn I & II. Að mestu þýtt úr norska tímaritinu Samtiden.
  • Ólafur Daníelsson, 1913: Ýmsar skoðanir á eðli rúmsins. M.a. rætt um afstæði að hætti Minkowskis, en Einstein ekki nefndur.
  • Guðmundur Hlíðdal, 1915: Röntgengeislar.
  • Gunnlaugur Claessen, 1915: Frú Curie.
  • Ágúst H. Bjarnason, 1915-19: Heimsmyndin nýja I, II, III, IV, V og VI. Efnisyfirlit: Heimspekilegur inngangur. Um uppruna og þróun efnisins. Um uppruna og efni sólkerfanna. Geislandi efni og upplausn fleirra. Frumeindir og sameindir. Ólífræn og lífræn efnasambönd.
  • Gunnlaugur Claessen, 1916: Röntgensgeislar.
  • Þorkell Þorkelsson, 1916: Hvað eru Röntgens-geislar? Flallar m.a. um áhrif kristalla á röntgengeisla.
  • Þorvaldur Thoroddsen, 1916: Hin nýja stjörnulist. M.a. er fjallað um ljósvakann, litróf og litrófsmælingar.
  • Þorvaldur Thoroddsen, 1917: Heimur og geimur. M.a. fjallað um ljósvakann.
  • Valdemar Steffensen, 1918: Radíum. Akureyri 1918. Fjallað um sögu röntgengeisla og geislavirkni. Sagt frá Röntgen, Becquerel, Curie og fl. Síðan rætt um radíumlækningar.
  • Ólafur Ólafsson (Hjarðarholti), 1919: Orkugjafar aldanna: Ný paradís í vændum?
  • Gunnlaugur Claessen, 1919: Radíum.

 

Frá stofnun stærðfræðideildarinnar til upphafs atómaldar

 

Atómöldin til 1961

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin

Ritaskrá Nikulásar Runólfssonar eðlisfræðings (1851-1898) – Drög

Nikulás Runólfsson cand. mag. á besta aldri.

Eftirfarandi skrá er að hluta byggð á upplýsingum í grein Leós Kristjánssonar frá 1987: Nikulás Runólfsson: Fyrsti íslenski eðlisfræðingurinn. Ef smellt er á bláu tenglana ættu viðkomandi greinar að birtast.

Frétt úr Lögbergi, 4. júní 1890, bls. 1 (5. dálki). Sjá nánari umfjöllun í kaflanum Priskonkurrencer í Aarbog for Kjøbenhavns Universitet 1889-1890, bls. 273 og 277-278.

Posted in Eðlisfræði, Nítjánda öldin

Viðtöl við íslenska raunvísindamenn

Stjarnvísindafélag Íslands hefur nýlega opnað sérstaka YouTube-síðu með viðtölum við sex íslenska raunvísindamenn í opnum aðgangi:

Vonast er til að með tíð og tíma bætist við fleiri viðtöl og annað efni. Ég reikna jafnframt með að fljótlega verði hægt að tengjast þessari síðu í gegnum heimasíðu félagsins.

Posted in Eðlisfræði, Stærðfræði, Stjörnufræði, Tuttugasta og fyrsta öldin, Tuttugasta öldin

Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi 2: Tímabilið 1780-1870 (d) Björn Gunnlaugsson og heimsmynd hans

Yfirlit um greinaflokkinn

Í staðinn fyrir að skrifa nýja færslu um Björn Gunnlaugsson hef ég ákveðið birta skrá yfir allt efni sem ég hef tekið saman um þann merka mann og verk hans. Listinn er fyrir neðan myndina og hægt er að nálgast hverja grein með því að smella á viðeigandi titil.

Heimsmynd Björns er sett fram í hinu mikla ljóði hans, Njólu, og ítarlega umfjöllun um hana er að finna í grein minni Björn Gunnlaugsson og náttúruspekin í Njólu frá 2003.

Björn Gunnlaugsson (1788-1876) árið 1859. Hann var þá 71 árs. Teikningin er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

 

Þekktustu verk Björns:

Njóla, hið merka heimsmyndarljóð Björns Gunnlaugssonar, kom fyrst út árið 1842. Hér má sjá forsíðu 2. útgáfu frá 1853. Verkið kom svo út í þriðja sinn 1884. Mynd: Wikipedia.

Björn lauk við að mæla Ísland árið 1844 og fyrsta úgáfan af hinu þekkta korti hans kom á prenti 1849.

 


* Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi: Efnisyfirlit *


 

Posted in Eðlisfræði, Efnafræði, Nítjánda öldin, Stærðfræði, Stjörnufræði

Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi 3: Tímabilið 1870-1930 (c1) Sturla Einarsson, íslenskur stjörnufræðingur í Vesturheimi

Yfirlit um greinaflokkinn

Skagfirðingurinn Sturla Einarsson (1879-1974) var fyrsti Íslendingurinn sem hlaut formlega háskólagráðu í stjörnufræði. Hann lauk A.B.-prófi í greininni frá Minnesótaháskóla í Minneapólis árið 1905 og varði síðan doktorsritgerð (Ph.D.) í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley 1913.  Sturla starfaði aldrei á Íslandi, enda fluttist hann fjögurra ára gamall með foreldrum sínum til Vesturheims þar sem hann bjó til æviloka. Hann telst því vera Vestur-Íslendingur.

Sturla Einarsson stjörnufræðingur í kringum 1930. Mynd: Mary Lea Shane Archives of the Lick Observatory.

Hér verður fjallað stuttlega um Sturlu og verk hans. Upplýsingarnar um nám hans og störf tók ég að mestu saman fyrir langa löngu, eða á árunum 1993-94. Þær eru að verulegu leyti fengnar í gegnum bréfaskipti við bandarísku stjarnvísindamennina Donald E. Osterbrock (1924-2007), John G. Phillips (1917-2001) og Harold F. Weaver (1917-2017) sem og son Sturlu, Alfred W. Einarsson (1915-2009), sem á sínum tíma var prófessor í eðlisfræði við San José State University. Þessir heiðursmenn eru nú allir látnir, en þótt seint sé, þakka ég þeim kærlega fyrir hjálpina.

Auk annarra tilfallandi heimilda hef ég jafnframt stuðst við eftirfarandi minningargreinar og æviskrár:

Áður en lengra er haldið er við hæfi að hlusta á stutt viðtal sem Finnbogi Guðmundsson, þá kennari við Háskólann í Manitóba og síðar landsbókavörður, tók við Sturlu árið 1955.

 

Ættir Sturlu og uppvaxtarár í Skagafirði og Duluth

Sturla fæddist á Grófargili í Langholti í Skagafirði hinn 9. desember 1879. Faðir hans var Jóhann Einarsson (1853-1917), sonur hjónanna Einars Magnússonar bónda í Krossanesi og konu hans Eufemíu Gísladóttur sagnaritara Konráðssonar. Móðir Sturlu var Elín Benónísdóttir (1850-1930) bónda á Beinakeldu í Húnaþingi og konu hans Ingiríðar Árnadóttur.

Tiltölulega nýleg mynd af Grófargili. Gamli bærinn er náttúrulega löngu horfinn. Myndin er úr skýrslunni Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Langholti, Skagafirði eftir Bryndísi Zoëga og Guðnýju Zoëga (des. 2004, bls. 9).

Aðrir synir þeirra Einars og Eufemíu og bræður Jóhanns voru Indriði hagfræðingur og leikritaskáld og séra Gísli í Stafholti.

Eftir að Jóhann og Elín höfðu stundað búskap á Grófargili í fimm ár fluttust þau árið 1882 að Brekku hjá Víðimýri. Árið eftir sigldu þau svo til Vesturheims og gerðust bandarískir ríkisborgarar. Þá var Sturla fjögurra ára og að bandarískum sið var hann ekki lengur Jóhannsson heldur Einarsson.

Fyrsta árið í Bandaríkjunum vann Jóhann sem vinnumaður hjá ýmsum bændum í Norður-Dakóta, en 1884 fluttist fjölskyldan búferlum til borgarinnar Duluth í Minnesóta þar sem tvö börn bættust fljótlega í hópinn, þau Nanna (1884-1969) og Baldur (1886-1962). Nokkru eftir komuna til Duluth setti Jóhann þar upp lítið mjólkurbú, sem hann rak í hátt á annan áratug. Skömmu upp úr aldamótunum 1900 fór búið hins vegar á hausinn og eftir það vann Jóhann hjá vini sínum Kristjáni Jónssyni (Chris Johnson) sem hafði yfirumsjón með Forest Hill kirkjugarðinum í Duluth. Þegar Jóhann lést árið 1917 orti Stephan G. Stephansson eftir hann erfiljóð, sem lesa má hér.

Hluti borgarinnar Duluth í Minnesóta í kringum 1905. Mynd: Shorpy.com.

Sturla fór í barnaskóla sjö ára gamall, einu ári á eftir jafnöldrum sínum. Hann kunni þá ekkert í ensku, því á heimilinu var eingöngu töluð íslenska. Af þeim sökum þurfti hann að vera þrjú ár í fyrsta bekk. Eftir það gekk allt betur og árið 1901 útskrifaðist hann úr menntaskóla, tuttugu og eins árs að aldri.  Með skólanum vann hann alla daga sem mjólkursendill hjá föður sínum og einnig í sumarfríum.

Strax að loknum menntaskóla hóf Sturla nám við viðskiptaskóla í Duluth, en átti þar stutta dvöl. Hugur hans stóð til háskólanáms og með góðri aðstoð áðurnefnds Kristjáns Jónssonar tókst honum að komast í raunvísindanám við Minnesótaháskóla í Minneapólis haustið 1901.

Sturla, ungur að árum. Ljósmyndari óþekktur.

 

Stjörnufræði í Bandaríkjunum á dögum Sturlu

Eins og önnur forn menningarsamfélög höfðu hinir fjölmörgu ættflokkar frumbyggja Norður-Ameríku sínar eigin hugmyndir um stjörnuhimininn og gang himintungla og studdust við þær með ýmsum hætti, meðal annars við akuryrkju og veiðar. Þekking á evrópskri stjörnufræði mun hins vegar hafa borist til Vesturheims með breskum landnemum á sextándu öld og á sautjándu öldinni var hún kennd í fyrstu skólum innflytjenda. Um svipað leyti var farið að gefa út almanök. Á seinni hluta átjándu aldar voru fyrstu litlu athugunarstöðvarnar reistar og fór þeim fjölgandi eftir því sem leið á nítjándu öldina. Vart er þó hægt að tala um kerfisbundnar rannsóknir í stjörnufræði fyrr en um og upp úr 1840, þegar W.C. Bond (1789-1859) kom upp fyrstu stjörnuathugunarstöð Harvardháskóla og Bandaríkjastjórn stofnaði sérstaka athugunarstöð sem rekin var af bandaríska flotanum í Washington D.C.

Hopkins stjörnuathugunarstöðin í Williams College í Massachusetts mun vera elsta varðveitta stjörnuathugunarstöðin í Bandaríkjunum, enda reist á árunum 1836-1838. Í júlí 1988 hýsti skólinn IAU-ráðstefnu um stjarnvísindakennslu og myndin sýnir þátttakendur fyrir framan stöðina. Ef grannt er skoðað má greina færsluhöfund í mannfjöldanum. Inni í byggingunni eru ýmis gömul tæki, þar á meðal aðalsjónauki stöðvarinnar, sjö þumlunga linsusjónauki, sem hinn þekkti A. Clark (1804-1887) smíðaði árið 1851 og mun vera einn elsti, ef ekki elsti sjónauki sem hann smíðaði og enn er varðveittur.

Ekkert er um það vitað hvað réði því að Sturla ákvað að leggja fyrir sig stjörnufræði. Hitt er ljóst, að á fyrstu áratugum ævi hans var mikill uppgangur í stjarnvísindum í Bandaríkjunum og á þeim tíma var lagður sá grunnur sem átti eftir að gera Bandaríkin að stórveldi á því sviði á fyrri hluta tuttugustu aldar. Sem kunnugt er hafa þau haldið þeirri stöðu alla tíð síðan.

Ein helsta ástæða þessarar hröðu þróunar var smíði sífellt stærri og betri sjónauka, sem komið var fyrir í nýjum og heppilega staðsettum athugunarstöðvum. Ólíkt því sem gerðist í Evrópu kom fjármagnið til framkvæmdanna að mestu frá auðugum einstaklingum, sem vildu halda nafni sínu og minningu á lofti. Þar fóru fremstir í flokki þeir J. Lick (1796-1876), P. Lowell (1855-1916), C. Yerkes (1837-1905), J.D. Hooker (1838-1911), J.D. Rockefeller (1839-1937) og A. Carnegie (1835-1919).

Að sjálfsögðu komu fjölmargir aðrir að þessari uppbyggingu, en sá sem hafði hvað mest áhrif á þróunina var stjarneðlisfræðingurinn G.E. Hale (1868-1938), sem ekki var aðeins framúrskarandi vísindamaður heldur ótrúlega laginn við sannfæra auðmenn um að leggja fram fjármagn til stjarnvísindarannsókna. Hinn mikli 200 þumlunga (5 m) sjónauki á Palomarfjalli er við hann kenndur.

Myndin sýnir staðsetningu þekktustu stjörnuathugunarstöðva Bandaríkjanna á árunum frá 1887 til 1928. Þær eru í tímaröð: Lick Observatory (1888), Lowell Observatory (1894), Yerkes Observatory (1897), Mount Wilson Observatory (1904) og Palomar Observatory (1928). Kortið er fengið að láni hjá vefsíðunni America’s Historic Observatories. Sjá einnig Wikipediugreinarnar Observatory, List of largest optical reflecting telescopes og List of largest optical refracting telescopes.

 

Nám Sturlu við Minnesótaháskóla í Minneapólis 1901-1905

Lítið sem ekkert er vitað um dvöl Sturlu við Minnesótaháskóla, nema hvað námið gekk vel. Hann lagði fyrst og fremst stund á stjörnufræði með eðlisfræði og stærðfræði sem aukagreinar. Aðalkennari hans við stjörnufræðideildina var F.P. Leavenworth (1858-1928) og síðustu tvo veturna var Sturla aðstoðarmaður hans, samhliða náminu. Á sumrinn vann hann fyrir sér sem sendill fyrir slátrara í Duluth. Hann lauk A.B.-prófi vorið 1905 með góðum vitnisburði. Hann var þá 25 ára.

Minnesótaháskóli í Minneapólis eins og hann leit út á námsárum Sturlu. Kennsla í stjörnufræði, eðlisfræði og efnafræði mun hafa farið fram í Jones Hall, kassalaga húsinu lengst til vinstri á myndinni. Mynd: Gamalt póstkort.

Aðal stjörnufræðikennari Sturlu í Minnesota, prófessor Francis P. Leavenworth, árið 1900. Mynd: Wikipedia.

Stjörnuathugunarstöð Minnesótaháskóla á námsárum Sturlu. Hún var tekin í notkun 1891 og undir hvelfingunni var 10,5 þumlunga (26,7 cm) linsusjónauki frá fyrirtækinu Warner & Swasey en í flata hluta stöðvarinnar („The Transit House“) var hágöngukíkir. Hvelfingin var síðar sett upp á þak sérhannaðar byggingar, sem nú hýsir eðlisfræði og stjörnufræði háskólans (frekari upplýsingar má nálgast hér; athugið að umfjöllunin nær yfir þrjár síður). Sjá einnig myndirnar hér fyrir neðan.

Linsusjónauki athugunarstöðvarinnar, 10,5 þumlungaar að þvermáli.

Tvær myndir af hágöngukíki stöðvarinnar.

Sturla Einarsson nýútskrifaður frá Minnesótaháskóla vorið 1905. Ljósmyndari óþekktur.

 

Stjörnufræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley

Góður árangur Sturlu í A.B.-náminu varð til þess að haustið 1905 komst hann að sem framhaldsnemi hjá prófessor Armin O. Leuschner (1868-1953) við stjörnufræðideild hins þekkta Kaliforníuháskóla í Berkeley. Deildin var þá til húsa í byggingum, sem gengu undir nafninu Stjörnuathugunarstöð stúdenta (The Students’ Observatory, síðar Leuschner Observatory). Fyrstu tvö árin í Berkeley mun Sturla hafa fengið þar lítið herbergi til að búa í. Auk þess réði Leuschner hann strax sem aðstoðarmann (assistant), starf sem Sturla stundaði samhliða náminu. Launin og önnur fríðindi hafa eflaust skipt sköpum fyrir fjárhag hans og gert honum kleift að ljúka doktorsnáminu.

Aðalkennari Sturlu og leiðbeinandi í doktorsnámi, Armin O. Leuschner árið 1930. Teikning eftir P. Van Valkenburgh.

Upphaflega stjörnuathugunarstöðin í Berkeley (The Students’ Observatory) árið 1905. Auk nokurra sjónauka og annars tækjabúnaðar var þarna fyrirlestrarsalur, herbergi til að vinna að gagnaúrvinnslu og úreikningum og skrifstofuaðstaða fyrir kennara. Fyrstu byggingarnar voru teknar í notkun árið 1887, en með árunum bættust fleiri við. Árið 1951 var nafninu breytt í Leuschner Observatory og fjórtán árum síðar var stöðin svo lögð niður í þáverandi mynd, flutt til Lafayette í Kaliforníu og rekstrarforminu breytt. Þar er stöðin enn. Frá 1959 hafa stjarnvísindamenn skólans hins vegar haft aðsetur í Campbell Hall. Mynd: Gamalt póstkort.

Leuschner-stöðin árið 1961, fjórum árum áður en hún var flutt til Lafayette. Mynd: IAU News-Bulletin 8, 1961, bls. 1.

Rauða örin á kortinu sýnir staðsetningu stjörnuathugunarstöðvarinnar á háskólalóðinni í Berkeley árið 1911. Kortið er fengið að láni hjá þessari vefsíðu og færsluhöfundur býst ekki við að aðrir en þeir, sem þekkja til í Berkeley nútímans, hafi af því full not. Þar sem stöðin stóð er nú grænt svæði, Observatory Hill, ásamt minningarskildi sem sýndur er á myndinni fyrir neðan:

Í lok nítjándu aldar voru sjónaukar stöðvarinnar tveir. Annars vegar pólstilltur sex þumlunga (15 cm) linsusjónauki með 8,5 feta (2,6 m) brennivídd og hins vegar þriggja þumlunga (8 cm) hágöngukíkir af Davidson gerð. Einnig átti stöðin nokkra sextunga, klukkur af ýmsum gerðum, jarðskjálftmæla og rófsjá.

Árið áður en Sturla hóf nám við deildina hafði verið bætt þar við nýjum sjónaukum og byggt yfir þá, þar á meðal átta þumlunga (20 cm) Newtonssjónauka, smíðaður af Brashear, og 5 þumlunga (13 cm) linsusjónauka með 6,33 feta (1,9 m) brennivídd. Auk  þess höfðu eldri byggingar verið endurnýjaðar og sumar stækkaðar. Mikilvægt er að hafa í huga að allir sjónaukarnir voru fyrst og fremst hugsaðir sem kennslusjónaukar.

Þennan átta þumlunga Newtonssjónauka frá Brashear fékk fékk Konunglega kanadíska stjarnvísindafélagið að gjöf árið 1904. Hann gæti verið svipaður að gerð og sá sem Berkeley-stöðin eignaðist sama ár. Því miður hef ég ekki enn fundið neinar myndir af tækjabúnaði stöðvarinnar sjálfrar.

Þegar hin nýja aðstaða var tekin í notkun 1904 hélt W.W. Campell (1862-1938), þáverandi stjórnandi Lick stjörnuathugunarstöðvarinnarstutt ávarp og sagði þar meðal annars nokkur orð, sem eiga jafn vel við í dag og fyrir rúmri öld (bls. 66-67):

In these days of great things one frequently hears the opinion expressed that for useful investigational work in astronomy powerful telescopes are demanded. It is true that recent advances in our science have been due in large part to the possession of powerful and expensive equipment. But the directors of observatories possessing such equipment are wisely restricting their programmes of work to those problems which cannot be solved equally well with small instruments; and it would be a grievous mistake to assume that the small telescope in suitable hands is not able to render good account of itself.

Eins og áður sagði réði Leuschner Sturlu sem aðstoðarmann við stöðina strax eftir komuna þangað árið 1905. Við það fjölgaði starfsliðinu úr tveimur í þrjá, því 1903 hafði R.T. Crawford (1876-1958) verið ráðinn kennari við stjörnufræðideildina. Starfsmannafjöldinn óx síðan hægt og sígandi á næstu áratugum. Hvað Sturlu varðar má geta þess að hann hlaut framgang í starfsheitið fyrirlesari (instructor/lecturer) árið 1910, varð doktor (Ph.D.) 1913, lector (assistant professor) 1918, dósent (associate professor) 1920 og loks fullgildur prófessor árið 1928. Hann vann síðan samfellt við stjörnufræðideildina í Berkeley til starfsloka árið 1950.

Armin O. Leuschner

Leuschner, leiðbeinandi Sturlu í doktorsnámi, var einn þekktasti stjörnufræðingur síns tíma í Vesturheimi. Hann lagði grunnin að rannsóknum við stjörnufræðideildina í Berkeley og tókst að gera hana að bestu deild á því sviði í Bandaríkjunum. Það gerði hann meðal annars með því að koma á náinni samvinnu við Lick stjörnuathugunarstöðina á Hamiltonfjalli. Einnig má geta þess, að hann átti mikinn þátt í að leggja grunn að rannsóknum í eðlisfræði í Berkeley í byrjun tuttugustu aldar, líkt og stjarneðlisfræðingurinn G.E. Hale gerði við Throop verkfræðiskólann í Pasadena, sem síðar varð að Tækniháskóla Kaliforníu (Caltech).

Þótt Leuschner hafi komið víða við í rannsóknum sínum var sérsvið hans aflfræði himintungla, einkum kennilegar rannsóknir á brautum smáhnatta (halastjarna og smástirna) í sólkerfinu. Brautir þessara hnatta verða yfirleitt fyrir talsverðum þyngdartruflunum frá nálægum reikistjörnum (all ítarlega umfjöllum um þetta efni er að finna í færslunni um stjörnufræðingurinn Steinþór Sigurðsson [1904-1947]).

Þekktastur er Leuschner fyrir sérstaka aðferð (Leuschner’s Short Method) til að ákvarða grunnstærðir (orbital elements) fyrir svokallaða snertibraut (osculating orbit) hnattar, það er að segja bestu Keplersbrautina, sem fellur að niðurstöðum mælinga á stöðu hnattarins á þremur mismunandi tímum. Aðferð hans var veruleg einföldun á nálgunaraðferð, sem P.-S. Laplace (1749-1827) hafði sett fram árið 1799.

Á fyrstu áratugunum eftir að Leuschner kynnti þessa nýju aðferð var hún mikið notuð af bandarískum stjörnufræðingum, ekki síst í Kaliforníu. Sem dæmi má nefna að Sturla Einarsson notaði hana í svo til öllum sínum brautarreikningum (nánar um það hér á eftir).

Bestu og skipulegustu umfjöllunin um aðferð Leuschners er þó ekki að finna í ofantöldum greinum, heldur í eftirfarandi kennslubók:

Leuschner árið 1916 ásamt mynd af bókamerki hans. Sjá nánar hér.

Lick athugunarstöðin

Ein helsta ástæða þess að framhaldsnámið við stjörnufræðideildina í Berkeley var talið jafn gott og raun ber vitni voru náin tengsl deildarinnar við Lick stjörnuathugunarstöðina. Hún var fyrsta stöðin í heiminum sem reist var á háum fjallstindi og á sínum tíma voru athugunarskilyrði þar einstaklega góð. Stöðin var og búin stórum og vönduðum sjónaukum, sem ætlaðir voru til grunnrannsókna á himingeimnum.

Lick stjörnuathugunarstöðin á Hamiltonfjalli í Kaliforníu árið 1900. Hún er nefnd eftir athafnamanninum J. Lick (1796-1876) sem hvílir undir stóra linsusjónaukanum í stærstu hvelfingunni. Myndin er fengin að láni hjá Kubitz, A., 2013: The Lick Observatory on Mount Hamilton: Historic Outpost of Science!  Sjá einnig vefsíðurnar Historical Resources, Historical Telescopes og Historical Collections.

Þótt Lick-stöðin væri innan vébanda Kaliforníuháskóla var hún formlega sjálfstæð stofnun með eigin stjórn og starfslið. Samvinnan við stjörnufræðideildina í Berkeley hófst árið 1898 með samkomulagi milli Leuschners og þáverandi forstöðumanns Lick-stöðvarinnar, hins merka stjarnvísindamanns J.E. Keelers, þess efnis að vísindamenn stöðvarinnar kæmu reglulega í heimsókn til Berkeley og héldu þar fyrirlestra um nýjungar í rannsóknum. Að auki var ákveðið að bæði framhaldsnemar og kennarar frá Berkeley gætu dvalið um lengri eða skemmri tíma við stöðina við rannsóknir. Þetta gerði það meðal annars að verkum að á fyrstu áratugum tuttugustu aldar útskrifaði stjörnufræðideildin í Berkeley fjölda framúrskarandi doktora, sem margir áttu eftir að gegna mikilvægu hlutverki við uppbyggingu stjarnvísinda víðsvegar um Bandaríkin.

Á dögum Sturlu voru stærstu og þekktustu sjónaukar Lick-stöðvarinnar tveir, báðir þrjátíu og sex þumlungar (91 cm) að þvermáli og pólstilltir. Þeir voru hinn 17 metra langi Lick linsusjónauki frá 1888 og Crossley spegilsjónaukinn sem settur var upp árið 1905.

Lick linsusjónaukinn eins og hann leit út árið 1910 (sjá einnig hér). Teikning: Wikipedia.

Árið 1909 dvaldi Sturla ásamt samstúdent sínum R.K. Young (1886-1973) um tíma við athugunarstöðina á Hamiltonfjalli við rannsóknir á sjónlínuhraða fjarlægra sólstjarna með svokallaðri Mills litsjá, sem tengd var við Lick linsusjónaukann. Þar lærðu þeir einning að túlka önnur litróf undir stjórn þáverandi forstöðumanns Lick-stöðvarinnar W.W. Campbells og litrófsfræðingsins K. Burns (1881-1958). Ég veit ekki til að sjónlínuhraða-mælingarnar hafi verið birtar.

Mynd af Mills litsjánni frá 1898. Þarna er hún tengd við stóra Lick linsusjónaukann. Gripurinn er nefndur eftir D.O. Mills, hollvini athugunarstöðvarinnar. Mynd: Wikipedia.

Vormisserið 1929 tók Sturla, þá nýorðinn prófessor, sér leyfi frá kennslu og fluttist tímabundið upp á Hamiltonfjall með konu sína og börn (fjallað verður um fjölskylduna hér á eftir). Frá þeim tíma liggur eftir hann grein um mælingar á stöðu halastjörnunnar 1929a Schwassmann-Wachman með Crossley spegilsjónaukanum. Að auki er getið um athuganir hans í grein eftir A.S. Young.

Crossley spegilsjónaukinn eins og hann leit út árið 1905. Hann er kenndur við enska athafnamanninn E. Crossley (1845-1905) sem gaf stöðinni sjónaukann (sjá einnig hér og hér). Mynd: Lick Observatory.

Í lok þessa kafla er við hæfi að nefna að nú um stundir eru umsvif Kaliforníuháskóla á sviði stjarnvísinda heldur viðameiri en þau voru á dögum Sturlu Einarssonar.

 

Innan sviga: Eini Íslendingurinn, annar en Sturla, sem ég veit til að hafi tengst Lick athugunarstöðinni með einhverjum hætti er stjarneðlisfræðingurinn Steinn Sigurðsson (f. 1965) sem nú er prófessor við Ríkisháskólann í Pennsylvaníu. Hann mun hafa verið nýdoktor á Lick frá 1991 til 1994. Hér má finna viðtal við Stein frá 1995.

Kennilegi stjarneðlisfræðingurinn Steinn Sigurðsson. Myndin er fengin að láni úr fréttinni Sigurdsson elected as fellow of the American Physical Society frá 2021.

 

Rannsóknarnámið í Berkeley 1905-1913

Svo heppilega vill til að á doktorsskírteini Sturlu Einarssonar frá 1913 eru talin upp öll þau námskeið sem hann fékk viðurkennd í rannsóknarnáminu:

Af listanum má sjá að mikil áhersla hefur verið lögð á aflfræði himintungla í náminu, einkum þó brautarreikninga, enda var það helsta sérsvið Leuschners. (Eins og áður var bent á er all ítarlega umfjöllun um þessi fræði að finna í færslu um Steinþór Sigurðsson).

Á námsárum Sturlu og síðar voru helstu grundvallarritin á þessu sviði þýsku doðrantarnir,

Þegar fram liðu stundir var þó nær eingöngu stuðst við verk bandarískra höfunda í kennslunni í Berkeley, eins og til dæmis:

Hér má jafnframt lesa fróðlegar greinar um þær flækjur sem komið gátu upp í brautarreikningum á þessum tíma:

Sjá einnig grein danska stjörnufræðingsins J.V. Hansens (annars af aðalkennurum Steinþórs Sigurðssonar í Kaupmannahöfn) sem hún skrifaði meðan hún stundaði rannsóknir við Lickstöðina á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar:

Á námsárum Sturlu var fjöldi framhaldsnema í stjörnufræði þegar orðinn óvenju mikill, miðað við það sem áður var. Þar á meðal voru nokkrar konur.

Mynd af sex stjörnufræðistúdentum í Berkeley árið 1908. Efri röð frá vinstri: Sturla Einarsson, E.A. Fath (1880-1959) og W.F. Meyer (1880-1948). Í fremri röðinni standa þær A.E. Glancy (1883-1975), S. Morgan og A. Joy. Myndin er úr greininni Anna Estelle Glancy (1883-1975). Sjá einnig í þessu sambandi grein S.M. Humphreys frá 2021: Celestial Observers: First Sixteen Berkeley Women Doctoral Graduates in Astronomy 1913-1952.

Ljósmynd Glancys af halastjörnunni c 1908 Morehouse, tekin frá Lick athugunarstöðinni 14. nóvember 1908 (sjá t.d. Glancy, A.E., 1908: Photographs of Comet C 1908 (Morehouse)). Niðri í Berkeley reiknuðu þeir Sturla og Meyer hins vegar bæði brautarstika snertibrauta  og stutt stjörnualmanak fyrir stjörnuna (Einarsson, S & Meyer, W.F., 1908: Second elements and ephemeris of Comet C 1908 (Morehouse)).

Stjörnufræðideildin í Berkeley var ekki aðeins önnum kafin við kennslu og rannsóknir, heldur sinnti hún einnig alþýðufræðslu. Það má til dæmis sjá af eftirfarandi frétt úr blaðinu San Francisco Call, hinn 24. ágúst 1907:

Opinbert boð til almennings um að skoða halastjörnuna Daniel D 1907 í gegnum sjónauka Berkeley-stöðvarinnar. Stúdentarnir sem minnst er á í fréttinni eru þau Sturla Einarsson og A.E. Glancy. Sjá Crawford, R.T., Einarsson, S. & Glancy, A.E., 1907: Elements and ephemeris of Comet D 1907 (Daniel). Einnig eftirfarandi greinar eftir J.C. Duncan (1882-1967):  Duncan, J.C., 1907a: Note on Comet d 1907 (Daniel)) og Duncan, J.C., 1907b: Photographic observations of Comet D 1907 (Daniel) & Polariscopic observations of Comet D 1907 (Daniel).

Eins og áður hefur komið fram var Sturla ráðinn aðstoðarmaður við athugunarstöðina strax og hann hóf framhaldsnám árið 1905. Eftir fimm ár hóf hann að kenna námskeið í nytjastjörnufræði (Practical Astronomy), við stjörnufræðideildina og fékk þá starfsheitið fyrirlesari (instructor/lecturer) sem hann hélt til 1918. Þetta hefur sennilega valdið því að það tók hann átta ár að ljúka doktorsprófi (1913). Þremur árum eftir prófið varð hann lektor (assistant professor), síðan dósent (associate professor) 1920 og loks prófessor 1928.

Kennilega hluta námsins hjá Sturlu hefur þegar verið lýst, en „verklegi hlutinn“ í námsefni hans og samstúdenta var aðalega í því fólginn að nota nýlegar athuganir annarra stjörnufræðinga á halastjörnum (og stundum smástirnum) til að reikna út staðsetningu þeirra á himinkúlunni nokkrar vikur eða mánuði fram í tímann (þ.e. reikna stutt stjörnualmanak með gildum á stjörnulengd (α), stjörnubreidd (δ) og eiginhreyfingu (μ) halastjarnanna). Þessu fylgdu ávallt útreikningar á tilheyrandi snertibrautum. Sjá nánari umfjöllun um slíka vinnu í færslunni um Steinþór Sigurðsson.

Í ritaskrá Sturlu má sjá að á tímabilinu 1905-1913 hefur hann, auk doktorsritgerðarinnar, birt (oftast ásamt öðrum) einar tuttugu og þrjár vísindagreinar. Á árunum 1914-1928 voru þær sjö og eftir að hann varð prófessor 1928 aðeins ein. Ástæðan mun vera sú að eftir 1920 tóku kennsla og stjórnunarstörf svo til allan hans tíma.

 

Doktorsritgerð um Trójusmástirni 1913

Akkilles, fyrsta smástirnið á braut Júpíters, fannst í ársbyrjun 1906, þegar Sturla var á öðru misseri í framhaldsnáminu í Berkeley. Því sem næst samstundis stakk sænski stjörnufræðingurinn C.V.L. Charlier (1862-1934) upp á því, að smástirnið væri bundið við Lagrangepunktinn L4 á braut Júpíters og því væri æskilegt að kanna það svæði nánar og einnig svæðið í kringum L5, og jafnvel tilsvarandi svæði á braut Satúrnusar. Um haustið fannst svo Patróklos við L5, síðan Hektor við L4 í ársbyrjun 1907 og loks Nestor við L4 vorið 1908. Fljótlega var farið að kenna þessi smástirni við Tróju, en hið fimmta, Príamos, fannst þó ekki fyrr en 1917 og þá við L5. Í dag skiptir fjöldi þekkra Trójusmástirna þúsundum.

Einfaldar skýringarmyndir af stöðu helstu smástirnahópa í sólkerfinu. Efri myndin sýnir bæði smástirnabeltið milli Mars og Júpíters og Trójusmástirnin á braut Júpíters. Sú neðri sýnir tveggja hnatta kerfið Sól-Júpíter og hina fimm Lagrange punkta þess, auk Trójusmástirnanna. Þríhyrningarnir sem tengja stöðugu jafnvægispunktana L4 og L5 við Júpíter og sólina eru jafnhliða. Bæði Akkilles og Hektor eru á yfirráðasvæði punktsins L4. Sjá ítarlega umfjöllun um þetta efni í færslunni um stjörnufræðinginn Steinþór Sigurðsson. Myndirnar eru af veraldarvefnum.

Uppgötvun Trójusmástirnanna vaki strax mikla athygli í Evrópu og sums staðar í Bandaríkjunum, en stjörnufræðingarnir í Berkeley virðast lítið hafa sinnt þeim, allt þar til Sturla hóf að vinna að doktorsritgerð sinni, sem hann svo varði í byrjun maí 1913:

Í ritgerðinni notar hann áðurnefnda aðferð Leuschners til að reikna út brautir Hektors og Akkillesar um sólina. Með samanburði við útreikninga dansk/sænska stjörnufræðingsins S.E. Strömgrens (1870-1947) á braut Hektors á árunum 1908-1912 fullyrðir Sturla að niðurstöður sínar, fengnar með aðferð Leuschners, gefi mun nákvæmari lýsingu á braut Hektors en sú reikniaðferð, sem Strömgrein notaði. Því til sönnunar vísar hann á mælingar á stöðu Hektors á hvelfingunni.

Fyrir utan tilvitnanir í Leuschner og Strömgren getur Sturla aðeins um einn stjörnufræðing til viðbótar í ritgerðinni. Það er bandarísk/enski vísindamaðurinn E.W. Brown (1866-1938), prófessor við Yaleháskóla, sem skrifaði nokkrar athyglisverðar greinar um smástirnabrautir árið 1911.

Mér vitanlega var doktorsritgerð Sturlu aldrei gefin út prentuð, en Leuschner minnist á  niðurstöður hans í yfirlitsgrein frá 1922, Celestial mechanics: A survey of the status of the determinationof the general perturbations of the minor planets (sjá bls. 9-10, 54 og 61). Þá er vísað í PASP-grein Sturlu frá 1913 í ensku Wikipediugreininni um Trójusmástirnin (tilvitnun nr. 13).

Listi yfir doktorsritgerðir í raunvísindum frá Berkeley árið 1913. Þær eru allar í stjörnufræði. Úr Science-greininni Doctorates Conferred by American Universities, bls. 266. Auk Sturlu og A.E. Glancy eru á listanum þau E.S Haynes (1880-1956), sem síðar varð prófessor við Háskólann í Missouri, C.C. Kiess (1887-1967), P.W. Merrill (1887-1961) og  E.P. Waterman (1882-1967). Karlarnir fjórir fengu fljótlega stöður við hæfi í Bandaríkjunum, en konurnar tvær ekki. Þær brugðu því á það ráð að halda áfram rannsóknum í Argentínu, eins og lesa má um í grein S. Paolantonio frá 2018:  Two Women Astronomers at the Argentine National Observatory: Dr. Anna Estelle Glancy and Dr. Emma Phoebe Waterman. Báðar sneru þær þó aftur til Bandaríkjanna. Sjá í því sambandi greinarnar The First Lady of Optics og More Than a Century Ago, Astronomer Phoebe Waterman Defied Her Doubters.

 

Innan sviga: Eins og þegar hefur komið fram fylgdist S.E. Strömgren, prófessor í stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla og forstöðumaður Stjörnuathugunarstöðvar-innar á Østervold, grannt með ferðum Hektors um árabil. Nemandi hans og síðar stjörnumeistari Østervoldsstöðvarinnar, J. Vinter Hansen (1890-1960), gerði hið sama hvað Akkilles varðar. Þessi áhugi á Trójusmásirnum Júpíters varð til þess að nemandi þeirra, Steinþór Sigurðsson (1904-1947), valdi útreikninga á braut Akkillesar sem magistersverkefni við Kaupmannahafnarháskóla. Verkefnið varði hann 1929 og gaf ritgerðina síðan út endurbætta í Astronomische Nachrichten árið 1933 (sjá nánar í færslunni stjörnufræðingurinn Steinþór Sigurðsson):

Frá vinstri: S.E. Strömgren prófessor, J. Vinter Hansen stjörnumeistari og Steinþór Sigurðsson stjörnufræðingur.

Kennarinn

Þótt Sturla hafi stundað rannsóknir af kappi á námsárunum, dró smám saman úr þeim með tímanum og eftir að hann varð fastráðinn prófessor, árið 1928, virðist hann að mestu hafa hætt slíkri iðju og snúið sér alfarið að kennslu og stjórnunarstörfum. Meginverkefni hans sem kennara við stjörnufræðideildina í Berkeley var að kenna verðandi stjörnufræðingum, byggingaverkfræðinemum og öðrum sem áhuga höfðu svokallaða nytjastjörnufræði (Practical Astronomy). Í þeirri grein var einkum fjallað um himinkúlufræði, ákvörðun tímans, staðarákvarðanir og landmælingar, auk siglingafræði og notkun tilheyrandi mælitækja. Einnig kom hann, eins og aðrir kennarar deildarinnar, að kennslu grunnnámskeiðs deildarinnar í almennri stjörnufræði. Þá kenndi hann bandarískum sjóliðsforingjaefnum siglingafræði í báðum heimsstyrjöldum við miklar vinsældir. Hann þótti einstaklega góður kennari og að sögn samtímamanna lét hann sér mjög annt um nemendur sína. Færsluhöfundi hefur ekki enn tekist að grafa upp hvaða bækur Sturla notaði við kennsluna, en eftirfarandi kennslubækur gefa góða lýsingu á því sem féll undir hatt nytjastjörnufræði á þeim tíma:

Ég hef ekki fundið neinar myndir af Sturlu við kennslu, en hér eru í staðinn tvær hópmyndir, þar sem sjá má hann í mannþröng (fylgið rauðu örvunum):

Þátttakendur á þingi Stjarnvísindafélags Bandaríkjanna (AAS) í Berkeley í ágúst 1915. Í fremstu röð sitja frá vinstri: Óþekktur, S.D. Townley (1867-1946), R.T. Cawford (1876-1958),  H.D. Curtis (1872-1942), óþekktur og óþekktur. Í annarri röð, sitjandi á stólum, eru frá vinstri: R.G. Aitken (1864-1951), R.H. Tucker (1859-1952), E.A. Fath (1880-1959), E.B. Campbell (eiginkona W.W. Campbells), F. Schlesinger (1871-1943), W.W. Campbell (1862-1938), G.E. Hale (1868-1938) og A.O. Leuschner. Á enda raðarinnar, sitjandi á jörðinni, er J. Stebbins (1878-1966; sköllóttur). Fyrir aftan hinn sitjandi hóp stendur H. Shapley (1885-1972), sjötti frá vinstri. Hinum megin stendur Sturla Einarsson, áttundi frá hægri (örin bendir á hann). Mynd: Meetings of the AAS: 1908-1915

Starfsmenn stjörnufræðideildarinnar í Berkeley fyrir utan Stjörnuathugunarstöð stúdenta (The Students’ Observatory) í Berkeley vorið 1923. Í öftustu röð standa frá vinstri: C.D. Shane (1895-1983), H.B. Kaster, R.T. Crawford (1876-1958), E.W. Brown (1866-1938; gestur), A.O. Leuschner, R.H. Sciobereti (1886-1974) og V.F. Lenzen (1890-1975). Sitjandi í miðröðinni eru frá vinstri: H. Thiele (1878-1946), A. Williams (1884-1961), E. Wilkinson, óþekkt, K. Prescott (1901-1980), M.L.H. Shane (1897-1977), Sturla Einarsson (örin bendir á hann), J. Pearce (1893-1988), W.F. Meyer og Th. Buck (1881-1969). Í fremstu röðinni sitja frá vinstri: Óþekktur, J.D. Shea, B.C. Wong (1890-1947) and J.F. Pobanz. Mynd: Mary Lea Shane Archives of the Lick Observatory.

 

Stjórnunarstörf

Stjörnufræðingurinn L.H. Aller (1913-2003) var B.A. nemi í stjörnufræði í Berkeley á fjórða áratugi tuttugustu aldar. Í sjálfsævisöguágripinu An Asronomical Rescue, sem birt var 1995, segir hann meðal annars eftirfarandi um dvölina þar (bls. 4):

I […] found myself in an astronomical department steeped in 19th-century traditions. Although William F Meyer taught a course on practical aspects of astronomical spectroscopy, C Donald Shane presented modern ideas on such topics as stellar atmospheres, and later Robert J Trumpler covered topics in statistical astronomy and galactic structure, the big push was on orbit theory. Celestial mechanics and orbit theory have an elegance that was almost totally obscured by the tedious massaging of equations to render them suitable for logarithmic calculations. Mechanical calculating machines had appeared but were totally despised by people like Russell Tracy Crawford. The department was severely ingrown. Until Trumpler arrived there was nobody who had not come up through the ranks of the Berkeley Astronomical Department. Although Leuschner was a terrible lecturer, he was also one of the most inspiring teachers I’ve ever had. He would suggest new ideas and approaches in such a way as to fire the enthusiasm of even this dyed-in the-wool spectroscopist. We students came to regard the astronomy department as a kind of family, in which Leuschner was the patriarch, Sturla Einarsson was the kindly old prof on whose shoulder you could cry, and Donald Shane was the Dutch uncle who saw that we were always aware of the hard realities of life.

Eins og þarna segir, var nepótismi lengi allsráðandi við stjörnufræðideildina og á dögum Leuschners fengu nær eingöngu fyrrum nemendur hans fastráðningu þar. Áðurnefndur R.J. Trumpler (1886-1956) var eina undantekningin, enda hafði hann starfað við Lick-stöðina frá 1918 og kenndi oft nemendum við Berkeley. Þetta breyttist fyrst meðan Sturla var forseti stjörnufræðideildarinnar á árunum 1946-1950. Á þeim tíma tókst honum að lokka tvo framúrskarandi stjarneðlisfræðinga fra Yerkes athugunarstöðinni til Berkeley, fyrst  L.G. Henyey (1910-1970) árið 1947 og síðan O. Struve (1897-1963) árið 1950.  Um þetta segir D.E. Osterbrock í tölvubréfi til undirritaðs, 15. desember 1993:

Einarsson was only in this position [chairman] a few years, but perhaps his most important contribution was that he recruted Otto Struwe, then director of Yerkes, to come to Berkeley to succeed him when he retired (in 1950). This was the first step (actually the second, the first was Einarsson’s hiring Louis G. Henyey as the first astrophysicist on the Berkeley faculty in 1947) in changing Berkeley over from its rather old-fashioned ways under Leuschner (and Crawford) to the very strong, astrophysics-oriented department it is today.

Stjarneðlisfræðingarnir L.G.Heyney til vinstri og O. Struve.

Sturla tók að sér mörg önnur stjórnunarstörf, bæði utan skóla sem innan. Meðal annars var hann formaður (president) hins þekkta félags Astronomical Society of the Pacific (ASP) árið 1934 (tók við af E. Hubble) og starfaði árum saman (1950-1968) sem ritari-gjaldkeri (secretary-treasurer) félagsins. Til gamans má finna hér uppgjör hans fyrir árið 1953.

 

Nánasta fjölskylda

Eins og sagði í upphafi voru foreldrar Sturlu bóndinn og síðar kirkjugarðsvörðurinn Jóhann Einarsson (1853-1917) og kona hans Elín Benónísdóttir (1850-1930). Systkini hans voru Nanna (1884-1969) og Baldur (1886-1962).

Sumarið 1914 gekk Sturla að eiga fyrri konu sína, Anna Rodman Kidder (1890-1940). Í nokkur ár þar á undan hafði hún verið framhaldanemi við stjörnufræðideildina og aðstoðarmaður við athugunarstöðina, líkt og Sturla hafði áður verið. Eins og þá tíðkaðist hætti hún námi við giftinguna, en náði þó að ljúka meistaraprófi í stjörnufræði árið 1913 með ritgerðinni A Comparison of Photographic with Theoretical Positions of Six Minor Planets.

Til gamans set ég hér inn skemmtilega frétt af stjörnufræðingunum við Berkeley frá 1913, þar sem minnst er á þau bæði, Önnu og Sturlu:

Úr  San Jose Mercury-News, 6. okt. 1913: Comet lost for half a century seen again. Hér má svo lesa nánar um halastjörnurnar 20D/Westphal, 29P/Neujmin og B 1913 Metcalf.

Þau Anna og Sturla eignuðust fjögur börn: Alfred Worchester (1915-2009) eðlisfræðing, Elizabeth (Cook) (f. 1917), Margaret (Dechant) (f. 1920) og John Rodman (f. 1921) verkfræðing. Anna lést árið 1940, þá aðeins fimmtug, en Sturla lifði mun lengur. Hann var orðinn 94 ára gamall þegar hann dó 1974. Þá voru barnabörnin orðin sex og eitt barnabarnabarn komið í heiminn.

Sturla giftist seinni konu sinni, Thea C. Hustvet (f. 1902), árið 1945. Hún mun hafa verið viðskiptaskólagengin og leiddi það meðal annars til þess að hún aðstoðaði mann sinn í störfum hans fyrir ASP. Eftir að hann hætti sem gjaldkeri árið 1968, varð hún aðstoðar-ritari-gjaldkeri félagsins í nokkur ár.

Sturla ásamt seinni eiginkonu sinni Thea Einarsson (fædd Hustvet) árið 1966. Mynd: Mary Lea Shane Archives of the Lick Observatory.

Að sögn samferðamanna lifði Sturla ávallt hamingjusömu fjölskyldulífi og lagði mikla áherslu á að sinna henni vel.

 

Íslenskir námsmenn í Berkeley á stríðsárunum

Eftir að seinni heimsstyrjöldin skall á lokaðist fljótlega fyrir aðgang íslenskra stúdenta að háskólum í Evrópu. Margir brugðu þá á það ráð að fara til Bandaríkjanna til háskólanáms, meðal annars við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Hópur Íslendinga þar var orðinn svo stór haustið 1942 að ákveðið var að stofna sérstakt félag, Félag íslenzkra stúdenta í Berkeley, „til að halda hópinn og ræða sameiginleg áhugmál [auk þess að] kynna Ísland og Íslendinga meðal þeirra íbúa Vesturheims, sem hafa áhuga á íslenzkum málum.“ Verndarar félagsins voru séra Steingrímur O. Thorláksson og frú og heiðursfélagar þau Sigríður Benónýs og Sturla Einarsson. Um Sturlu segir í fréttinni:

Heiðursfélaga hafa stúdentarnir kjörið prófessor Sturlu Einarsson […] sem kennir stjörnu- og siglingafræði. [Hann] er eini íslenzki prófessorinn við University of California og hefir jafnan greitt götu íslenzku stúdentanna og reynst þeim hinn bezti vinur.

Þessi mynd af Sturlu birtist í greininni Meðal íslenzkra námsmanna í Kaliforníu  í Vísi, 16. apríl 1944, bls. 1. Sennilega stendur hann þarna við einn af sjónaukunum í Stjörnuathugunarstöð stúdenta. Í sömu grein (bls. 4) má einnig sjá eftirfarandi mynd:

Sturla ræðir við nokkra íslenska stúdenta í Berkeley árið 1944. Næst honum situr Bjarni Jónsson stærðfræðingur (1920-2016). Bjarni var þarna á fyrsta ári í doktorsnámi í stærðfræði við skólann, eftir að hafa lokið þar B.A. prófi árið áður.

Haustið 1998 skrifaði Halldór Þorsteinsson bókavörður og skólastjóri ágæta opnugrein í Lesbók Morgunblaðsins um dvöl sína í Berkeley á sríðsárunum: Námstími í Berkeley. Um Sturlu lætur hann þessi orð falla:

Auk okkar íslensku háskólastúdentanna starfaði vestur-íslenskur prófessor í stjörnufræði við Kaliforníuháskóla, Sturla Einarsson, sem reyndist okkur hollur ráðgjafi og góður vinur.

Af því sem þegar hefur verið tínt til má ráða að Sturla Einarsson hefur verið í miklum metum, ekki aðeins meðal íslenskra stúdenta í Berkeley á dögum seinni heimsstyrjaldar-innar, heldur einnig meðal allra þeirra nemenda, sem voru svo lánsamir að njóta kennslu hans á fyrri hluta tuttugustu aldar.

 

Umsagnir samferðamanna

Þar sem ég þekkti Sturlu ekki persónulega og hitti hann aldrei, er vel við hæfi að ljúka þessari umfjöllun með ummælum nokkurra samstarfsmanna hans í Berkeley um líf hans og störf:

Í minningargrein frá 1975 segir prófessor J.G. Phillips eftirfarandi (bls. 23):

While Sturla Einarsson made significant research contributions on the orbits of  comets and asteroids, he will be remembered by generations of Berkeley students as a dedicated teacher. His personal interest in their welfare and careers was legendary. During his entire career at Berkeley he was immersed in University affairs, serving on innumerable faculty and university commities and boards during the Sproul heyday when the Univerity of California was undergoing its explosive growth.

Nítján árum síðar skrifar Phillips svo í bréfi til undirritaðs (23. janúar 1994):

[Sturla Einarsson] was of the old school, with a courtly manner not frequently found among astronomers today. Along with Cunningham he was the last of the Berkeley group made famous by Schlessinger [probably Phillips ment to write Leuschner?] for their expertise in positional astronomy and calculation of orbital elements; fields thought by us of the younger generation to be “hopelessly out of date”. Little did we know that American astronomy would soon be greatly embarassed when satellites started orbiting the Earth and so few of us had bothered with orbits. Yet despite this gulf between our research interests, Sturla Einarsson was always extremely solicitous of the welfare of us younger astronomers, helping out when he could. When he retired he insisted on giving up his office, and instead set up a desk in a very draughty transit house. […] I will always cherish the memory of Einarsson, as an example of a breed that has, unfortunately, become very rare.

Að lokum birti ég hér umsögn prófessoranna H.F. Weavers, L.E. Cunninghams og C.D. Shanes um Sturlu í minningargrein frá 1980 (bls. 80):

The quiet, solid success of Einarsson’s long and productive life stemmed from ability, perseverance, and the boldness to seize opportunity when presented, combined with humor, honesty, and a strong sense of community. Parts of his biography read like incidents in a novel set in an earlier, simpler America that was vigorous, interesting, and full of opportunity. Many look at such a time with considerable nostalgia.

Sturla Einarsson á efri árum. Mynd úr minningargrein J.G. Phillips frá 1975.

 

Ritaskrá Sturlu má finna hér.


* Stjarneðlisfræði og heimsfræði á Íslandi: Efnisyfirlit *


 

Posted in Nítjánda öldin, Stjörnufræði, Tuttugasta öldin