Upplýsingar óskast
Til að forðast misskilning er rétt að geta þess, að hér er hugtakið raunvísindi takmarkað við sviðin stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði og efnafræði, sem og undirgreinar þeirra.

Nýlega rakst ég á mjög áhugaverða bók, Women in the History of Quantum Physics: Beyond Knabenphysik, sem fjallar um ýmsa merka en lítt þekkta kveneðlisfræðinga á tuttugustu öld. Bókin er gefin út í tilefni skammtafræðiársins 2025 og er hluti af óformlegu alþjóðlegu átaki sem miðar að því að vekja athygli á mikilvægu framlagi kvenna til eðlisfræðinnar, allt frá upphafi.
Ég hef lengi fylgst með alþjóðlegri umræðu um þessi mál, ekki aðeins hvað eðlisfræði varðar, heldur einnig stærðfræði, stjörnufræði og efnafræði. Einhverra hluta vegna minnti áðurnefnd bók um kvenskammtafræðingana mig samt óþægilega á þá staðreynd, að allt of lítið er til af aðgengilegu efni um nám og störf einstakra íslenskra raunvísindakvenna og/eða persónulega reynslu þeirra af vísindasamfélaginu hér á landi. Það er ekki einu sinni til skrá yfir allar þær íslensku konur sem lokið hafa háskólanámi í raunvísindum (þetta á reyndar einnig við um raunvísindakarla). Rétt er þó að geta þess að á vef Kvennasögusafnsins má finna skrá yfir íslenska kvendoktora og á sínum tíma tók Leó heitinn Kristjánsson saman nokkrar skrár yfir nemendur sem útskrifast höfðu með BS, BA og MS próf í raunvísindum frá Háskóla Íslands á tímabilinu 1954 til 2003, bæði karla og konur:
- BA stúdentar í raungreinum frá HÍ 1954-1974
- Nemendur með BS í eðlisfræði og jarðeðlisfræði 1973-2003, o.fl.
- Nemendur með BS í jarðfræði 1972-2002
- Nemendur með BS í efnafræði og stærðfræði 1972-82
Í grúski mínu um sögu raunvísinda á Íslandi fyrir 1960 hef ég aðeins rekist á eina konu sem starfaði á sviði raunvísinda hér á landi á framangreindu tímabili. Það er norsk-íslenski veðurfræðingurinn Teresía Guðmundsson (1901-1983). – Og nú spyr ég: Veit einhver úr hópi lesenda um aðrar íslenskar konur sem luku háskólaprófi í raunvísindum fyrir 1960 (eða jafnvel 1970) og störfuðu síðan hér á landi og/eða erlendis?
