Athygli er vakin á nýrri grein Steindórs J. Erlingssonar vísindasagnfræðings í hausthefti Skírnis 2025 (bls. 267-300). Titill hennar er Eðlisfræðingur verður til: Nám og rannsóknir Þorbjörns Sigurgeirssonar á árunum 1937-1947. Eins og nafnið gefur til kynna, fjallar hún um þann áratug í lífi Þorbjörns sem mótaði hann sem eðlisfræðing. Í sama hefti (bls. 301-304) birtir Steindór að auki ljúfsárt súrrealískt ljóð „Álftin og öreindirnar“ um ferðlag manns sífellt dýpra niður í efnisheiminn.

Í greininni fjallar Steindór af agaðri nákvæmni vísindasagnfræðingsins um þetta viðburðaríka tímabil í lífi Þorbjörns, meðal annars um kynni hans af erlendum eðlisfræðingum, tengsl rannsókna hans við nýjar uppgötvanir í kjarneðlisfræði og hvernig öll vísindastarfsemi varð fyrir beinum eða óbeinum áhrifum frá alþjóðlegri stjórnmálaþróun samtímans, sem mótaðist fyrst og fremst af uppgangi nasismans, seinni heimsstyrjöldinni og upphafi atómaldar.
Steindór hefur greinilega lagt mikla vinnu í rannsóknir á vísindaþættinum í lífi Þorbjörns á þessu mikilvæga tímabili. Í greininni er byrjað á því að fjalla um eðlisfræðinám hans við Kaupmannahafnarháskóla frá haustinu 1937 til magistersprófsins vorið 1943. Síðan eru tekin fyrir þau ár sem Þorbjörn vann erlendis að rannsóknum (í tímabundnum stöðum, sem við í dag myndum kenna við nýdoktora) fyrst í kjarneðlisfræði við Eðlisfræðistofnunina í Kaupmannahöfn og Nóbelsstofnunina í eðlisfræði í Stokkhólmi. Þá kemur lýsing á stuttum en árangursríkum ferli hans við rannsóknir í líffræðilegri eðlisfræði (biophysics) við Rockefellerstofnunina í Princeton og loks yfirgripsmikil umfjöllun um hinar mikilvægu geimgeislarannsóknir hans við Princetonháskóla.
Greinin er fræðilega vönduð, fróðleg og vel skrifuð. Hún er að hluta byggð á upplýsingum sem ekki hafa komið fram áður, enda tókst Steindóri að fá aðgang að dagbók, sem Þorbjörn hélt meðan hann dvaldi í Svíþjóð og geymd er hjá afkomendum hans. Einnig studdist Steindór við fjölda gagnlegra bréfa, sem tengjast ævi Þorbjörns á umræddu tímabili og varðveitt eru í skjalasöfnum, ýmist erlendum eða íslenskum.
Það er engin tilviljun að þessi áhugaverða grein birtist einmitt núna. Næsta haust verður óskabarn Þorbjörns, Raunvísindastofnun Háskólans, nefnilega sextíu ára, og ég reikna fastlega með að stjórn stofnunarinnar haldi veglega upp á þau merku tímamót. Einnig er rétt að nefna að sumarið 2027 verða liðin 110 ár frá fæðingu Þorbjörns.
Ég vil geta þess í lokin að þetta verk Steindórs varð mér hvatning til að leggjast sjálfur í frekari könnun á nokrum atriðum í sögu tilrauna-öreindafræðinnar er tengjast rannsóknum Þorbjörns við Princetonháskóla. Árangurinn af því grúski mínu er birt í færslunni Geimgeislarannsóknir Þorbjörns Sigurgeirssonar í Princeton og þáttur þeirra í þróun öreindafræðinnar. Líta má á hana sem eins konar viðbót við grein Steindórs. Það skal þó skýrt tekið fram, að hann ber enga ábyrgð á misfellum sem þar kunna að leynast, og öllum athugasemdum um færsluna ber því að beina til mín á póstfangið einar@hi.is.